(ég ákvað að birta hér eina stutta hugleiðingu sem ég skrifaði í blaðið Kratylos, sem ég og félagar mínir nokkrir stöndum að)

Þegar þessi tvö orð draga sig saman og huga að kaupum á hundi og húsbíl, er voðinn vís. Neistaflug er of léttvægt orð, ætli ekki sé réttara að það rigni eldi og brennisteini – sem er reyndar visst neistaflug. Hver veit um meira taugastrekkjandi spurningar en t.a.m. hvað er list? hvað er menning? hvað er ég? hvað er hvað? og hvað er möbíusarborði?
Hvað með það?
Skilgreiningar eru heftandi og hamlandi, þegar best lætur truflandi. En þó geisar faraldur skilgreiningarveirunnar of heim allan. Það lýsir sér best í því að rétt í þessu, upp úr blautu, fekk ég óstjórnanlega löngun til að glíma við spurninguna: hvað er skilgreining?
Best væri að svara öllu svona þvaðri á sama veg og Ágústínus kirkjufaðir ansaði því hvað tíminn væri forðum: „Þegar enginn spyr mig, hvað tíminn er, þá veit ég það. Þegar einhver spyr mig, veit ég það ekki.”. Hve mikilli hentisemi má einn dýrlingur búa yfir? Er heilögum mönnum ekkert heilagt?
En aftur að því óþolandi efni sem höfundur sér eftir að hafa skrifað um, en nú verður ekki aftur snúið – nema hann vilji verða að saltstöpli. Mig fýsir að útkljá þetta í eitt skipti fyrir öll, en auðvitaskuld verður það ekki raunin. Lausn á vandamáli eyðir því sjaldan, eða aldrei, það skýtur alltaf upp kollinum aftur hjá einhverjum.
Því fer fjarri að allir séu á eitt sáttir þegar skilgreiningin á list er annars vegar. Hefur höfundur heyrt mýgrút kenninga, heimabakaðra og fjöldaframleiddra, frá ótrúlegasta fólki í gegnum tíðina. Seint verður gerð grein fyrir öllu kenningakaðinu sem sprettur upp í kringum listaverkið, fyrir ofan það, neðan það og inni í því. T.a.m. heldur kunningi minn því statt og stöðugt fram að list sé merking og aðferð sem maður notar til að koma merkingunni til skila [VeryMuch :)], en ég neyðist til að slá hér varnagla því ég hef ef til vill ekki skilið þessa tilgátu til hins ýtrasta og gæti verið að fara með fleipur.
Fyrir nokkru síðan stakk ég minni eigin kredduköku í ofninn sem mér þá þótti bragðast afskaplega vel (augabragð með smá afbragði og keim af klofbragði). Hún fól í sér að ef einhver skapar eitthvað með það í huga að það sé listaverk, og hann segir það vera listaverk að verki loknu – þá er það listaverk. Og þótt einhver loðmulla og halalalli horfi á verkið og segi háum rómi: „þetta er ekki list!”, þá breytir það litlu. Því þó það sé kannski ekki listaverk í hans augum, þá er það enn listaverk í augum skaparans – og einhvern veginn hlýtur þetta allt að velta á höfundinum. En auðvitað er gall í gjöf Njarðar, það er aldrei að vita hvað maðurinn hugsar, kannski lýgur hann einsog andskotinn og þar fram eftir götunum. Það var annmarki sem ég gat sætt mig við, ég meina, við verðum seint fullkomlega viss um nokkuð hvort eð er. Nóg um það.
Höldum okkur við listina. Ég á tvær aðferðir í handraðanum til að gera atlögu að henni, en hvorug er réttnefnd lausn. Aðferðirnar eru til þess gerðar að afmá alvarleika spurningarinnar; gera úr henni góðlátlegt grín. Sumir kalla þetta útúrsnúning, aðrir rökgreiningu tungumálsins, hinir án efa fiskabúr.
Hægt er að halda því fram að þetta sé í raun ekki spurning, heldur blekki orðin okkur til að halda það. Þau draga okkur á asnaeyrunum út um allar jarðir að tilefnislausu. Þar sem „list” er nafnorð, teljum við okkur trú um að það vísi til einhvers áþreifanlegs, einhvers hlutar – rétt einsog orðið „daðla” gerir. Og þar er komin ástæða fyrir því að fólk er ekki á eitt sátt hvað þetta varðar, því finnst eitthvað vanta. En spurningin er fölsk, hún villir á sér heimildir.
Aðferðin sem ég treysti hvað mest á og ætla því að klykkja út með er einnig fólgin í orðum, og byrjar með samlíkingu. Tökum til dæmis leiki, ef við reynum að skilgreina leik lendum við ávallt í vandræðum; engin skilgreining virðist ná yfir þá alla. Það sést á því hve mikið fellur undir „leik”: boltaleikur, leikur barna, hljóðfæraleikur, látbragðsleikur, orðaleikur, tölvuleikur, hægðarleikur(!) og svo mætti lengi telja. Mér finnst þetta eiga við listina líka (og reyndar menningu o.fl.), hún er ekkert eitt. Ef við skilgreinum hana erum við að afmarka hana og skipa henni fastan sess, setja hana á „sinn” ímyndaða stað, og það dregur úr krafti þessarar taumlausu höfuðskepnu menningarinnar.
En nú vaknar stóra spurningin; hvað í ósköpunum er þá leiklist?

Elmar Geir Unnsteinsson