Áfengis og vímuvarnir: Viðhorf stjórnvalda og almennings

Það er mikið búið að ganga á í áfengis of vímuvörnum landsins undanfarinn áratug. Hver man t.d. ekki eftir því þegar ísland átti að verða eiturlyfjalaust árið 2002. Síðan eru liðin mörg ár og sér vart högg á vatni, því enþá flæðir allt í fíkniefnum og áfengi.

Jú, það hefur vissulega margt gott runnið frá ráðamönnum þjóðarinnar þegar kemur að þessum málum, t.a.m. stofnun áfengis og vímuvarnarráðs, sem heyrir nú undir lýðheilsustöð. Ríkisstjórnin hefur veitt háum fjármunum til rannsókna og forvarnarstarfs á þessu sviði, allt að 50 milljónir er ár hvert úthlutað úr forvarnarsjóði og til rannsókna.

Það er margt gott málefni sem fær styrk úr þessum sjóði og við skulum klappa fyrir því, það er ekki tilgangur þessarar greinar að fara smátt ofan í úthlutanir þessa ágæta sjóðs. Látum því nægja að segja að sjóðurinn mætti vera digrari, en sumt er kanski á mörkum þess að geta kallast forvarnarstarf.

Tilgangur þessarar greinar er að skoða álit almennings og stjórnvalda til þessara mála. Eru viðhorfin rétt ?

Það er gaman að horfa aftur í tíman og bera saman hvernig viðhorfin voru hér áður fyrr. Einusinni þótti t.d. ekkert slæmt að reykja tóbak. Það var reykt á sjúkrahúsum, í sjónvarpinu og bara út um allt. Það var varla haldin fín veisla ánþess að bjóða upp á vindlinga. Fyrir mann af minni kynslóð er það mjög undarlegt að heyra frásagnir frá eldri kynslóðum þess efnis að það þótti bara hið besta mál að bjóða upp á sígarettur í t.d. fermingarveislum. Þetta sama fólk sem keypti vindlingana þá, er jafnvel steinhissa á þessu sjálft í dag. Þetta er gott dæmi um það hvernig viðhorf almennings hefur breyst. Það dettur ekki nokkrum heilvita manni í hug að mótmæla því að þetta sé góð og eðlileg þróun. Núna er jafnvel að fara af stað umræða um að banna reykingar á veitingahúsum. Það er að mestu búið að skrúfa fyrir reykingar í sjónvarpi og við þurfum ekki einusinni að tala um sjúkrahúsin, svo sjálfsagt þykir þetta.

Það er ekki langt síðan að það var litið hornauga að bjóða upp á áfengi í fermingarveislum. Það þykir ekki langt því frá eðlilegt að foreldrar gefi börnum sínum, sem eru undir tvítugsaldri, í glas. Það þykir beinlínis glæpsamlegt í dag. Auglýsingar til að varna því að mamma eða pabbi fari í ríkið fyrir börnin sín, líkja slíku athæfi réttilega við það að “díla” fíkniefnum, þeas að foreldrið sé þá í hlutverki eiturlyfjasala.

En er áfengi fíkniefni ? Er verið að reyna að segja okkur það ? Samkvæmt áfengissérfræðingunum hjá SÁÁ, er áfengi “eina löglega vímuefnið”. En verður fólk fíkið í áfengi ? Jú, mikil ósköp: “Á Íslandi eru nú 22% líkur fyrir karla og 10 % líkur fyrir konur að verða vímuefnafíklar einhvern tíma á ævinni og í 80 % tilvika er vímuefnaröskunin fyrst og fremst áfengissýki.” *(heimild http://saa.is)

Það er s.s. ekki nóg með það að áfengi sé fíkniefni, heldur er það lang-stærsti fíkniefnavandi landans með um 80% hlutfall á móti öllum hinum fíkniefnunum.

En er áfengi ekki bara saklaus drykkur, ég má alveg fá mér í glas öðru hverju ánþess að vera alkóhólisti ?!

Þetta eru skilaboðin sem samfélagið sendir börnum okkar. Þeir einu sem senda börnum okkar önnur skilaboð eru forvarnarfulltrúarnir góðu, eða þeir sem fara í skólana og halda fyrirlestur um þessi mál fyrir börnin. En hvernig eiga börnin að taka þetta alvarlega þegar allir eru úti að djúsa, líka mamma og pabbi. Og meiraðsegja þeir sem samþykja og skrifa undir lögin og ráðamenn þjóðarinnar, ekki sýna þeir það fordæmi að áfengi sé fíkniefni með því að bjóða upp á áfenga drykki í veislum sínum. Það þætti nú ekki beinlínis í lagi ef að það væri kókaín eða hass á boðstólnum þegar mikilmenni annara þjóða koma í fínar veislur hjá embættismönnum.

Börnin hljóta að líta upp til ráðamanna þjóðarinnar, og þau gera það. Er ekki forseti íslands t.d. höfuð skátahreyfingarinnar ? Skátahreyfingarinnar, sem þiggur styrki úr forvarnarsjóði ár eftir ár ? (Með fullri virðingu fyrir forseta og skátarhreyfingu) Þið hljótið að sjá rökvilluna í þessu dæmi. Ef að áfengi er fíkniefni, eiga þá ekki ráðamenn þjóðarinnar, sem berjast fyrir “íslandi án fíkniefna”, að sýna það góða fordæmi að drekka ekki opinberlega og úthýsa eiturlyfjum úr veislum sínum ?

Þegar frumvarpið um ísland án eiturlyfja var samið, gleymdist að telja áfengi með. Annars hefði frumvarpið líklega heitið: “Ísland án áfengis og vímuefna 2002”, í höfuðið á áfengis og vímuvarnarráði. Furðulegt ekki satt, hvað það virðist vera erfitt að ganga alla leið og viðurkenna skaðsemi áfengis til jafns við önnur vímuefni ? Áfengi, sem er þó 80% af vímuefnavandanum. Það er auðvitað erfitt fyrir þig og mig, kæri lesandi, að viðurkenna að við höfum haft rangt fyrir okkur, og þeim mun erfiðara fyrir stjórnvöld að reyna að sannfæra okkur um það.

En hvað hafa stjórnvöld gert til að sporna við áfengisvandanum ? Áfengisvandinn er Skv. skýrslu frá Alþjóða Heilbrigðisstofnun (WHO) eitt mesta heilsufarsvandamál heimsbyggðarinnar og hefur WHO beint þeirri beiðni til aðildarríkja sinna að taka strax í taumana. En þeir hjá WHO gera ráð fyrir að allt að 3% af heildartekjum 118 aðildarríkja sinna fari í kostnað samfara ofdrykkju. Þetta eru engir smá aurar, þegar á heildina er litið. *(heimildir: http://www.who.int)

Höfum við efni á því að skjóta skollaeyrum við þessum vanda og fara bara á barinn ? þetta er heldur ekki bara spurning um peninga, heldur mannlega þjáningu: Börn þurfa að horfa upp á fjölskyldumeðlimi deyja af völdum áfengisneyslu, ofbeldi, nauðganir, ölvunarakstur, misnotkun og alvarleg slys.. fylgja jafnan bakkusi frænda. Eigum við að horfa framhjá því næst þegar við fáum okkur í glas ? Hversu lengi er hægt að réttlæta okkar eigin neyslu, bara á því að hún sé lögleg ?

Þetta er kanski farið að hljóma eins og forvarnar-ræða frá bannárunum. En þið megið trúa því að ég vill ekki láta banna áfengi, né nein önnur vímuefni ef út í það er farið. Slík bönn hafa verið reynd, um allan heim, með hræðilegum afleiðingum. Það er löngu fullreynt að boð og bönn skipta engu máli í þessum efnum. Það sem við þurfum að breyta er viðhorf okkar, og við þurfum að lifa samkvæmt þeim viðhorfum, og sýna gott fordæmi. Þetta á auðvitað sérstaklega við um forustusauðina, sem allir hinir eiga að líta upp til.

Viðhorfin í samfélaginu eru smám saman að breytast. Með opinni umræðu og fræðslu. Fræðslu sem ekki byggist á hræðslu-áróðri eða bönnum. Ég spái því að mín kynslóð muni lifa þann dag að það þyki ekki eðlilegt að drekka sig fullann eða hafa áfengi á boðstólnum. Ykkur þykir það kanski fjarstæðukennt, en sjáið bara hvernig er að fara fyrir tóbakinu. Því skildi áfengið ekki fara sömu leið. Ekki láta plata ykkur, áfengi er dóp! Áfengi drepur! Hættum að horfa á áfengi sem saklausan hlut, sama í hvaða magni það er!
“Humility is not thinking less of yourself,