Pink Floyd Shine On Sælir, ég skrifaði þessa grein fyrst fyrir http://www.mania.stuff.is

Jæja, þá er maður búinn að skella sér á Shine On settið með Pink Floyd. Búinn að láta mig dreyma um það í um og yfir hálf ár þannig að ég tölti niður í Skífu og keypti mér það, þar sem ég ákvað að það myndi ég gera eftir prófin.

Settið inniheldur níu diska, 111 blaðsíðna bók, það sem lítur út fyrir að vera átta póstkort og pappastand fyrir diskana. Ekki amalegt það fyrir aðeins 11.999 krónur en ég fékk mitt á 15% afslætti, eða 10.199 krónur, og fékk ég síðasta eintakið af þessu setti.

Diskarnir níu eru;
A Saucerful Of Secrets,
Meddle,
The Dark Side Of The Moon,
Wish You Were Here,
Animals,
The Wall,
A Momentary Lapse Of Reason og
The Pink Floyd Early Singles.
Þarna eru bestu og þekktustu diskar Pink Floyd ásamt nokkrum öðrum. Ég get nú varla sett út á þetta diskaval, en ég hefði viljað sjá Ummagumma fyrir A Momentary Lapse Of Reason.

Bókin er svo með tímaás frá 1967 til 1992, eða þangað til þetta var gefið út, með öllum merkilegustu viðburðum hvers árs. Svo virðist vera að Pink Floyd séu verulega merkilegir þar sem hvað einasta sem þeir gerðu komst á þennan tímaás, en þar sem þetta er bók tileinkuð Pink Floyd skil ég svosem höfundinn alveg. Bókin inniheldur einnig texta allra lagana sem eru á diskunum sem fylgdu með settinu, nema The Pink Floyd Early Singles og fær hann heldur ekki neina umfjöllun í bókinni eins og hinir „official“ diskarnir. Umfjölluninni um þá er skipt í fernt; fyrst smá saga - ef þannig má að orði komast - um diskinn eða eitthvað tengt honum, svona til að opna kaflann um þann disk, textar við lögin á disknum, sagan bak við coverið og svo heljarinnar upplýsingar um diskinn. Að lokum er bókin uppfull af myndum, allt frá myndum af þeim sjálfum að miðastubbum af tónleikum að art-worki tengt Pink Floyd. Ég held meira að segja að á einni myndinni séu þeir meðsöngvaranum úr Focus en þar sem ég þekki ekki hina meðlimi bandsins á útliti get ég ómögulega sagt hvort þessi tvö bönd hafi hisst og spilað krikket saman - myndin er af Pink Floyd í krikketbúningum.

Póstkortin átta eru svo myndir af coverunum eða einhverju tengdu disknunum. Ég er ekki viss hverju þeir voru að sækjast eftir að maður notaði þetta í þegar þeir hönnuðu settið, en ég mun ramma þetta inn.

Þessi pappastandur er reyndar ekkert annað en gallagripur, þetta er skreytt með mynstrinu sem er framan á bókinni og stendur Pink Floyd fyrir ofan það. Nema hvað að ef þú vilt láta standinn snúa rétt stendur Pink Floyd á hvolfi. Ef þú vilt ekki þurfa að snúa hausnum 180° snýrð þú standinum á hvolf. Sem er mjög ljótt.

Það sem mér finnst kostur við þessa diska er að ef þú raðar endum þeirra saman í réttri röð, í tímaröð í þessu tilviki, myndar það The Dark Side Of The Moon logoið. Gallinn er hins vegar coverin á diskunum. Þau eru örsmá, eða 5 x 5 cm, og er restin af framhluta disksins bara svart. Hefðu mátt hafa þetta bara venjulegt. Í heildina er þetta frábært sett. Ef þú ert gallharður Pink Floyd aðdáandi þá skellir þú þér á það. Ef þú ert það ekki, leyfðu þá öðrum á njóta þess því trúðu mér, þú hefur ekkert við það að gera.