Eric Patrick Clapton fæddist í Ripley Englandi þann 30. mars 1945. Hann er sonur Patriciu Molly Clapton og Jerry Fryer. Fryer seinna fór frá þeim og í framhaldinu yfirgaf mamma hans Clapton og skildi hann eftir hjá ömmu sinni og afa sem ólu hann upp. Hann var alinn upp í blekkingu, mamma hans var sögð systir hans og gamla fólkið þóttist vera foreldrar hans. Þegar hann var 9 ára fékk hann að vita sannleikann og fékk það ekki mikið á hann, þótt ótrúlegt sé.

Þegar hann var 15 ára fékk hann sinn fyrsta gítar. Amma hans keypti hann á raðgreiðslum og Clapton byrjaði að leika á gítarinn. Fljótlega byrjuðu hæfileikarnir að koma í ljós og hann byrjaði í þessum og hinum hljómsveitum. Þegar hann var 17 ára var hann rekinn úr listaskólanum fyrir að spila á gítar í kennslustund. Honum var sama, hann vildi bara spila á gítarinn. Á þessum tíma var hann var undir miklum áhrifum frá ýmsum blúsurum og bandarísku R&B. Fljótlega gekk hann til liðs við The Yardbirds sem urðu landsfrægir og seinna meir ólu upp tvo aðra heimsklassa gítarleikara; Jimmy Page og Jeff Beck. Að mínu mati hafa þeir þó ekki tærnar þar sem Clapton hefur hælana. Clapton fékk á þessum tíma það kaldhæðnislega viðurnefni “Slowhand”. Clapton var einmitt með þeim allra fljótastu í bransanum og er það enn þann dag í dag þó að hann sé búinn að breytast á undanförnum árum. Hann fékk þetta viðurnefni því hann var gjarn á að slíta strengina á tónleikum og á meðan hann skipti um streng þá klöppuðu áhorfendur á meðan til að halda taktinum.
Clapton hætti þó í The Yardbirds 1965 vegna þess að honum leist ekki á tónlistarstefnuna sem þeir voru að taka. Hann var þá búinn að vera í 2 ár með þeim félögum. Hann var ekki lengi “á lausu” því hann gekk mjög fljótt til liðs við sveitina John Mayall’s and the Bluesbreakers. Í þeirri hljómsveit fengu hæfileikar hans að njóta sín og varð fljótt höfuðpaurinn og leaderinn í hljómsveitinni. Setningar eins og “Clapton is God” var farið að sjást spreyjað út um alla borg og hljómsveitin varð mjög vinsæl, aðallega fyrir gítarhæfileika og lagasmíðar Claptons. Árið 1966 hætti hann í hljómsveitinni til að stofna sína eigin hljómsveit, Cream, með þeim Jack Bruce og Ginger Baker. Allt saman toppmúsíkantar sem voru alltaf í samkeppni um hver væri bestur. Cream var eiginlega fyrsta alvöru harða rokkgrúppan og varð gríðarlega vinsæl. Var alltaf í samkeppni við Bítlana og Rolling Stones þó að tónlist þeirra væri ólík. Fyrstu þrjár plötur Cream urðu mjög vinsælar og þeir gerðu marga góða hittara, t.d. “White Room”, “Sunshine of your Love”, “Strange Brew”, “I Feel Free” og “Crossroads”. Hins vegar, vegna endalausrar spennu á milli þeirra þriggja og mikillar dópneyslu, þá leystist hljómsveitin upp árið 1968. Þeir fóru þó í tónleikaferðalag og gáfu út lokaplötuna Goodbye árið 1969.

Clapton stofnaði þá aðra hljómsveit ásamt nokkrum hæfileikaríkum einstaklingum sem fékk nafnið Blind Faith. Hljómsveitin lifði ekki lengi en þeir voru þó duglegir á meðan hún starfaði.

Clapton var á þessum árum í mikilli neyslu og hægði aðeins á tónlistinni eftir Blind Faith tímabilið. Hann var í rauninni ekkert að gera þegar honum bauðst að koma í hljómsveitina Derek and the Dominos. Hann hafði það gott í þeirri hljómsveit og gerðu þeir mörg góð lög, og þá samdi Clapton einmitt sitt þekktasta lag, “Layla”, árið 1971 sem er á plötunni Layla and Another Assorted Love Songs. Frábær plata. Layla var samið sérstaklega til Patty Boyd sem var kona besta vinar hans, bítilsins George Harrisons. Clapton var brjálæðislega ástfanginn af henni og gafst aldrei uppá að ná í Patty. Þau giftu sig árið 1979 og skildu 1988. Vinskapur Claptons og George hélst þó alltaf, þrátt fyrir að Clapton stal af honum konunni. Eitt sinn á meðan George var í Bítlunum þá bað hann Clapton um greiða. Clapton átti að spila eitt lag fyrir sig inn á plötu vegna þess að George sagðist ekki geta ráðið almennilega við það. Clapton skilaði því frá sér fullkomlega, eins og honum er einum lagið.

Því miður þá gekk samstarfið ekki upp þegar á reyndi í Derek and the Dominos og Clapton gekk úr hljómsveitinni. Þá byrjaði svartur tími í lífi Claptons. Hann dró sig alveg úr sviðsljósinu til þess að geta dópað fyrir alvöru. Árið 1972 kom gítarleikari The Who og vinur Claptons, Pete Townsend að honum nær dauða en lífi og bjargaði lífi hans. Clapton fór í afvötnun og honum tókst að hætta í neyslunni. Hann þakkaði Townsend fyrir stuðninginn með því að spila á plötunni Tommy sem er ein af rokkplötum aldarinnar. Árið 1974 gaf Clapton út plötu sem þykir ein hans besta, 461 Ocean Boulevard, en á þeirri plötu þakkar hann m.a. guði fyrir að hafa bjargað lífi sínu. Lagið “I Shot the Sheriff” eftir Bob Marley varð stórsmellur í nýrri (og betri) útgáfu Claptons en flest lögin á þessari plötu urðu vinsæl. Má þar nefna “Motherless Children”,” Willie and the Hand Jive” og “Let It Grow”. Margir aðdáendur Claptons urðu þó sárir út í hann vegna þess að allt rokk vantaði, þeim fannst Clapton vera að snúa við baki gömlu tónlistinni og fara meira út í söng og vandaðri lagasmíðar.

Clapton var duglegur á þessum tíma og gaf út eina plötu að meðaltali til ársins 1980 og vakti platan Slowhand sérstaka athygli árið 1977. Hún innihélt tvo risasmella sem enn eru vinsælir í dag, “Cocaine” og “Wonderful Tonight”. Wonderful Tonight er einmitt með þekktustu ástarlögum allra tíma og ég veit ekki um eina konu sem ekki bráðnar við að heyra það lag.

Árið 1980 gaf Clapton út plötuna Just One Night og fékk ekki alltof góða dóma en þykir í dag frábær plata. Clapton leiddist út í drykkju eftir útgáfu plötunnar og var lagður inn á spítala 1981 vegna ofdrykkju. Hann kom sterkari til baka og gaf út nokkrar góðar plötur á næstu árum, m.a. Journeymen, Another Ticket og Money and Cigarettes en vakti aldrei þá athygli eins og hann gerði á 8. áratugnum. Það var ekki fyrr en Clapton spilaði “Laylu” á tónleikunum Live Aid árið 1985 og þúsundir hlustuðu á, að það rann upp fyrir mönnum að Clapton var brilliant tónlistarmaður og minnti menn á hver væri þeirra gítarhetja. Plötur hans tóku stóran kipp og rokseldust á ný. Hann eignaðist einnig son, Conor, árið 1986 með ítölsku fyrirsætunni Lori Del Santo. Það var fyrsta barn Claptons (allavega sem vitað er um). Líf Claptons stóð í blóma. Ekki skemmdi það fyrir að plata hans, Crossroads, vann til tvennra Grammy verðlauna árið 1989.

Snemma á 10. áratugnum eða 1991 lenti Clapton í tveimur áföllum á stuttum tíma. Gítarleikarinn Stevie Ray Vaughan og tveir aðrir nánir vinir Claptons dóu í þyrluslysi og fékk það mikið á hann. Aðeins nokkrum mánuðum síðar dó Conor sonur hans þegar hann féll út úr glugga á 53. hæð stórhýsis þar sem barnsmóðir Claptons bjó. Aðeins nokkrum mínútum seinna kom Clapton og sá fullt af sjúkrabílum og löggubílum fyrir utan húsið. Þegar hann sá Lori niðurbrotna vissi hann að eitthvað hafði gerst fyrir Conor.

Árið 1992 var mjög gott fyrir Clapton. Hann samdi eitt fallegasta lag allra tíma, “Tears In Heaven”, fyrir kvikmyndina Rush og tileinkaði lagið syni sínum. Það lag kom fyrst út á plötunni Rush. Aðeins nokkrum mánuðum seinna hélt Clapton tónleika, Unplugged, og var gefinn út samnefnt plata sama ár. Hún fékk sex Grammy verðlaun, m.a. sem besta platan, besti karlkyns flytjandinn og Tears In Heaven var valið besta lagið en fyrir Rush útgáfuna. Þess má geta að sú plata hefur selst í yfir 6 milljónum eintaka um allan heim og upprunalega ætlaði Clapton ekki að gefa hana út.

Árið 1994 lét Clapton gamlan draum rætast og gerði blús plötu. Hún hét From the Cradle og hleypti nýju fersku lífi í blúsheiminn. Gagnrýnendur og aðdáendur héldu ekki vatni yfir þeirri plötu.

Clapton hefur oft samið lag fyrir myndir og meðal mynda má nefna Rush, Back to the Future, Color of Money, Lethal Weapon 3 (með Sting) og nú síðast Phonemenon. Clapton fékk einmitt Grammy verðlaun árið 1997 fyrir lagið “Change the World” sem var í myndinni Phonemenon en hún skartaði John Travolta, Forest Whitaker og Robert Duvall í aðalhlutverkum.

Undanfarið hefur Clapton verið iðinn við að gefa út plötur, hann gaf út plötuna Pilgrim árið 1998, Riding With the King (ásamt B.B. King) 2000 og nú síðast Reptile árið 2001.

Ég held að það sé engin spurning um það að Clapton er einhver athyglisverðasti tónlistarmaður allra tíma. Hann er talinn vera einn af þremur bestu gítarleikurum sögunnar, þó að mér finnist hann bestur, og hann er afbragðslagahöfundur og söngvari. Hann er mjög tæknilega góður á gítarinn og gítarsólóin frá Cream tímabilinu eru þau allra flottustu sem greinarhöfundur hefur heyrt. Hann er einnig mjög hraður og Jimmy nokkur Page á ekki einu sinni roð í hann í sambandi við hraða. Clapton vekur ávallt athygli og ég man eftir því að Paul McCartney lét hafa eftir sér einhvern tíma að það honum fyndist fátt skemmtilegra en að spila með Clapton. Clapton finnst ekkert skemmtilegra en að spila á tónleikum og fara í laxveiði til Íslands.

Þess má til gamans geta að ég hef hitt Clapton en hann rambaði inn í úrabúð föður míns árið 2001 og afgreiddi ég hann prívat og persónulega. Það er besti dagur lífs míns og mun vera það um ókomna tíð, enda goðið mitt síðan ég var 12 ára.

CLAPTON IS GOD!
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.