Tiger Woods, besti kylfingur heims, er nú kominn aftur á golfvöllinn eftir sex vikna frí. Hann verður meðal keppenda á Buick Invitational sem hefst í San Diego í kvöld og á þar titil að verja, en hann hefur unnið mótið þrisvar sinnum. Hann verður í ráshópi með Sergio Garcia og Stuart Appleby og hefja þeir leik á 10. teig á Torry Pines vellinum í kvöld.

„Ég get varla beðið eftir að hefja leik. Ég er búinn að vera í góðu fríi og hef náð að hlaða batteríin og er tilbúinn í slaginn. Ég vona að ég nái að skora vel enda er ég í toppæfingu og úthvíldur. Þó svo að ég hafi verið í fríi frá golfmótum hef ég haldið mér í góðri líkamlegri æfingu,“ sagði Tiger sem fór m.a. á skíði í fríinu með eiginkonu sinni, Elin Nordgren. Þá eyddi hann einnig tíma með föður sínum sem er rúmfastur vegna veikinda.

„Ég hef spilað hér á þessu golfsvæði reglulega frá því ég var 12 ára gamall. Þessir vellir henta mér mjög vel,“sagði Tiger. Aðspurður um helstu markmiðin á þessu ári sagði hann: „Það er að spila vel, vinna nokkur mót og leika betur en í fyrra.“