Vijay Singh á titil að verja á Opna Sony PGA-mótinu sem hefst á Waialae-vellinum í Honolulu á Hawaii á fimmtudag. Meðal 144 keppenda á mótinu er hin 16 ára gamla Michelle Wie og Norðmaðurinn Henrik Björnstad.

Singh, sem vann fjögur PGA-mót á síðasta ári, lék alla fjóra hringina í fyrra á innan við 70 höggum og vann mótið á 270 höggum. Ernie Els, sem er ekki með að þessu sinni, var í öðru sæti eftir að hafa leikið lokahringinn á 62 höggum. Völlurinn er par-70. Singh var fimm höggum á eftir Shigeki Maruyama fyrir lokahringinn, en lék hann á 65 höggum og vann Ernie Els með einu höggi.

22 af 28 kylfingum, sem tóku þátt í Mercedes meistaramótinu um síðustu helgi, verða með í Sony mótinu. David Duval, sem hefur ekki sigrað á PGA-móti síðan 2001, keppir nú á Opna Sony mótinu í fyrsta sinn síðan 1995.

Þá mæta flestir sem tryggðu sér keppnisrétt á úrtökumótinu fyrir PGA-mótaröðina sl. haust, m.a. Norðmaðurinn Henrik Björnstad, sem leikur fyrstur Norðmanna á PGA-mótaröðinni.