Ástralinn Stuart Appleby varð í gær annar kylfingurinn í sögunni til að sigra á Mercedes meistaramótinu á Hawaii þrjú ár í röð. Hann vann Vijay Singh á fyrstu holu í bráðabana og fór heim á nýjum Mercedes Benz 500 og með rúmar 60 milljónir króna í vasanum. Appleby og Singh léku báðir á 284 höggum, eða 8 höggum undir pari. Singh lék frábært golf í gær, á 66 höggum, eða 7 höggum undir pari, sem var besti hringur mótsins.

Appleby, sem er 34 ára, var með tveggja högga forskot á Michael Campbell en fimm högga forskot á Vijay Singh fyrir lokahringinn. Hann lék á 71 höggi í gær og þurfti svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum. Hann nældi sér í fugla á lokaholunni og tryggði sér þannig bráðabana gegn Singh. Hann náði sér síðan aftur í fugl á fyrstu holu í bráðabana (18. holu) á meðan Singh varð að sætta sig við par eftir að hafa misst níu feta pútt fyrir fugli.

„Það er auðvitað frábært að sigra á Mercedesmótinu, en að vinna það þrisvar í röð er líkast draumi,“ sagði Appleby. „Þetta var sætasti sigurinn hingað til, enda þurfti ég að hafa mikið fyrir honum. Þetta mót var mikil andleg prófraun, og eins líkamleg. Aðstæður voru mjög erfiðar og vindurinn spilaði stórt hlutverk. Ég æfði vel fyrir mótið og reyndi að endurtaka leikinn frá því í fyrra og árið þar á undan.“

Jim Furyk hafnaði í þriðja sæti á samtals fjórum höggum undir pari, fjórum höggum á eftir Singh og Appleby.

Gene Littler vann Mercedesmótið eins og Appleby þrisvar í röð, frá 1955-1957. Sex kylfingar hafa unnið mótið tvö ár í röð; Appleby, Littler, Jack Nicklaus (1963-64), Arnold Palmer (1965-66), Tom Watson (1979-80) og Lanny Wadkins (1982-83). Kylfingar utan Bandaríkjanna hafa unnið Mercedesmóitð síðustu fimm árin: Stuart Appleby (2004-06), Ernie Els (2003) og Sergio Garcia (2002).

Frá því 1953 hafa 10 sigurvegarar á Mercedes meistaramótinu hafnað í efsta sæti peningalistans. Jack Nicklaus og Tom Watson, gerðu það þrisvar sinnum hvor og Tiger Woods tvisvar sinnum, 1997 og 2000.

Næsta PGA-mót hefst á fimmtudaginn, en það er Opna Sony mótið sem fram fer á Honolulu á Hawaii. Meðal keppenda þar verður hin 16 ára gamla Michelle Wie.