Heimsmeistaramótið í tvímenningi verður haldið á Sandy Lane-vellinum í St. James á Barbados 4.-10. desember árið 2006. Brúðkaup Tiger Woods og sænsku fyrirsætunnar Elinar Nordegren fór einmitt fram í klúbbhúsinu á þessum sama velli árið 2004. Alls eru 24 þjóðir sem taka þátt í motinu, þar á meðal gestgjafarnir Barbados.

Heildarverðlaun í mótinu verða 4 milljónir Bandaríkjadala og ætla heimamenn að gera þetta að glæsilegasta heimsmeistaramóti sem haldið hefur verið hingað til. Mótið var haldið í Algarve í Portúgal á þessu ári þar sem Stelphen Dodd og Bradley Dredge voru í sigurliði Wales.

Þetta er í fyrsta sinn sem heimsmeistaramót í golfi er haldið á Barbados. Sandy Lane-völlurinn þykir frábær, er 6.800 metra langur par-72 og var opnaður 2001. Mótið verður sýnt beint til 140 landa.

Bandaríkjamenn hafa oftast sigrað í þessu móti, eða 23 sinnum alls. Tiger Woods og David Duval voru í liði Bandaríkjanna sem vann í Boenos Aires í Argentínu árið 2000. Tiger hefur ekki tekið þátt í mótinu síðan.