Samuel Jackson Snead var fæddur 27 Maí, árið 1912, í Ashwood í Virginíu fylki og var hann yngstur fimm bræðra. Þegar hann kom í heiminn var móðir hans, Laura, 47 ára gömul. Hann ólst upp á bóndabýli, þar sem mesta áherslan var lögð á búskap með hænur og kýr. En þar kviknaði líka áhugi hans á golfi þegar hann sá elsta bróður sinn berja kúlur út um allt býlið.

Hann bjó til sína eigin kylfur úr greinum af trjám sem að uxu rétt hjá býlinu og hann notaðist við þá bolta sem hann fann þegar hann var við kaddýstörf á Homestead golfvellinum sem var skammt frá heimili hans.

Árið 1931, þegar hann var 19 ára, fékk hann starf sem aðstoðarkennari á Homestead vellinum og 4 árum seinna, árið 1935, fluttist hann til Greenbrier og gerðist þar spilandi atvinnumaður og ári seinna komst hann á PGA túrinn.

Sam var um 180 cm á hæð og um 90 kíló og var mjög íþróttarlega vaxinn og þegar hann var ungur stráklingur labbaði hann meira og minna um berfætur. Hann var mikill íþróttarmaður í sér. t.d. á framhaldsskóla árum sínum þá gat hann hlupið 100 metrana á sléttum 10 sekúndum. Og þegar hann var sjötugs aldrinum gat hann staðið beinn í baki og sparkað efst í hurðarkarm.

“Slammin” Sam þótti alveg einstaklega hæfileikaríkur einstaklingur, hann t.d. lærði á banjó og trompet eftir eyranu en ekki með aðstoð kennara.Og þannig lærði hann líka golf að mestu leiti og í hvert skipti sem að rythmin hvarf úr sveifluni var í flestum tilfellum nóg fyrir hann að fara í skónum og sokkunum og spila þannig. Og það gerði hann eitt sinn á U.S Masters árið 1942, þegar hann spilaði 9 holur berfætur.

Sveiflan hans þótti einkar glæsileg og einkenndist hún af miklum krafti en þótti samt silki mjúk. Hann þótti einnig hafa góðann rythma og gríðarlega högglangur. Eitt skiptið þegar hann var spurður um sveifluna sína, svaraði hann á eftirfarandi hátt: “I try to feel oily.” Og seinna þegar hann var aftur spurður sömu spurningar, svaraði hann : “When I swing at a golf ball right, my mind is blank and my body is loose as a goose.”

Hann var þekktur undir nafninu “Slammin” Sam vegna högglengdar sinnar og var það eitt af hans vörumerkjum og varð heimurinn fyrst vitni af því þegar hann spilaði í móti á Hershey vellinum. Upphafshögg hans á 1. holu endaði inná gríni en holan er um 330 metrar að lengd. Hann endaði í 5. sæti á mótinu og vann sér inn 1.200 dollara í þessu fjórða móti hans sem atvinnumaður.

Hann sigraði á samtals 84. mót á PGA túrnum og þar af sjö risamót. Hann vann U.S. Masters 3 sinnum(1949, 1952, 1954), Opna Breska 1 sinni, á St. Andrews,(1946) og PGA Championship 3 sinnum(1942, 1949, 1951). En hann náði aldrei að sigra U.S. Open en 4 sinnum endaði hann í öðru sæti.

Hann var 8. sinnum í Ryder liði Ameríku og 3 sinnum var hann fyrirliði liðsins. 4. sinnum vann hann Vardon Bikarinn, sem að er viðurkenning fyrir lægsta meðalskor á einu tímabili og er bikarinn nefndur eftir Harry Vardon(skrifa grein um hann næst). En sá bikar sem var í mestu uppáhaldi hjá honum, var sá sem hann fékk þegar hann sigraði á U.S Master, eftir 18 holu umspil við Ben Hogan.

Sam Snead var svo vígður inní frægðarhöll golfsins árið 1974 og hann varð svo fjórði kylfingurinn til að veita, PGA Tour Lifetime Achievement Award, viðtöku fyrir framlag sitt til golfíþróttarinnar.


Árið 1979 varð Sam fyrsti golfarinn til að skora undir aldri sínum í móti, þ.e.a.s. spila á sama eða lægra skori en aldur hans er, þegar hann spilaði á 67 og 66 höggum á Quad Cities Open, “aðeins” 67 ára að aldri.

Snead varð fyrsti kylfingurinn til að vinna sama mótið 8 sinnum, Greater Greensboro Open, og þegar hann sigraði það mót í áttunda sinn varð hann elsti kylfingurinn til að vinna mót á túrnum, þá 52 ára að aldri. Hann vann 27 mót á túrnum áður en hann vann sitt fyrsta risamót. Og frá árunum 1984 til 2002 var hann í þeim hópi þeirri merkilegu manna sem slógu upphafshöggið á U.S Masters.

Hann átti líka sína eiginn veitingarhúsakeðju(ef svo má að orði komast) sem bera nafnið Sam Snead’s Tavern og eru þetta um 12 staðir í dag sem staðsettir eru víðvegar um Ameríku. Allt frá Kanada niður til Flórída og Pearl Harbor á Hawaii.

Þessi mikli snillingur afrekaði svo mikið á sinni ævi og gerði svo mikið fyrir golfheiminn og fékk mikið lof fyrir. Hann var t.d. einn af frumkvöðlunum að stofnun öldungatúrs PGA. Og það má með sanni segja að hann hafi hjálpað til við að lyfta golfinu á þann stall sem það er í dag.

Í dag eru tæp 2 ár síðann golfheimurinn varð fyrir miklum missi en 23 maí 2003 lést Sam Snead, þá var hann 91 árs að aldri og vantaði aðeins 4 daga uppá að hann næði 92 árunum. Maður skálar nú einn öl, þann 23 maí næstkomandi, svona til að heiðra minningu hans.

Næst skrifa ég um Harry Vardon sem að margir segja að hafi verið fyrsta ofurstjarnan í golfinu. Var svona að velta því fyrir mér hvort að ég ætti að taka smá pásu frá skrifum um bestu kylfinga sögunar eftir Vardon greinina og skrifa kannski eina góða grein um sögu golfsins svona inná milli, hvað finnst mönnum(og konum að sjálfsögðu)???
!