Zebra finkur Uppruni og útlit
Zebra finkur (Taeniopygia guttata castanotis) koma upphaflega frá Ástralíu. Þetta eru litlir fuglar sem hafa hin ýmsu litaafbrigði. Eins og hjá mörgum fuglum í dýraríkinu þá er það karlfuglinn sem er litskrúðugari. Hið venjulega, eða algengasta útlit karlfugls er rauður goggur, svört lína sem liggur frá augunum, hvít lína við gogginn og appelsínugular kinnar. Höfuðið og bakið er grátt en neðan frá gogginum liggja svartar línur meðan kviðurinn er hvítur. Á hliðunum eru brúnleitar fjaðrir með hvítum doppum og að lokum er stélið svart og hvítt. Kvenfuglarnir eru nánast alveg gráir nema ljósari á kviðnum og með svarta línu frá auganu og eins stél eins og karlinn. Þær eru einnig með appelsínugulan gogg.

Hinsvegar eru til ýmis litaafbrigði, fuglarnir geta verið hvítir, með svartar kinnar, silfraðir, mjög ljósir í yfirliti eða blanda af þessu öllu saman.


Hegðun
Zebra finkurnar eru mjög líflegar og líður best í hópum. Þessum fuglum líður ekki vel einum þannig er best að hafa þá tvo saman eða fleiri, hvort sem það er par eða tvö af sama kyni. Þegar þú ert með fugla af sama kyni er hinsvegar alltaf áhætta á rifrildum en það fer algjörlega eftir einstaka fuglum. Þótt finkurnar séu hópdýr er ekki gott að hafa oddatölu í hópnum, það er betra að vera með tvö pör en t.d. 2 konur og 1 karl því þá mun ein af stelpunum án efa verða út undan.

Finkurnar eru ekkert sérstaklega háværar og er það karlinn sem syngur helst, en annars gefa þau frá sér lítil ‚meep‘ ‚meep‘ hljóð.

Þeim finnst gaman að leika sér og fljúga um og elska það að fá að baða sig, helst á hverjum degi. Það er hægt að hafa vatnsskál á botninum eða fuglabað (í mínu tilviki virkar fuglabaðið best).

Því stærra búr, því betra. Sérstaklega ef maður er með nokkra fugla. En það er best að hafa búrin sem lengst lárétt þar sem fuglarnir fljúga meira til hliðanna en upp og niður (þó að fuglarnir mínir hafa ekkert á móti því að steypa sér af neðstu grein upp á þá hæðstu). Það er oft mælt með því að hafa búrin þar sem er ekki mikil umferð í íbúðinni, en ég ver að segja að það er ágætis traffík þar sem fuglarnir mínir eru og mér finnst það bara hafa vanið þá á að hafa fólk í kringum sig.

Finkurnar eru ekki gæfar eins og páfagaukar, þær koma ekki á puttann og þér og sitja á öxlinni á þér. Þó að í sumum tilvikum veit ég að fólk hefur tekist að þjálfa þær upp að einhverju leiti og eru ungar einstaklega gæfir. En það þarf þá að gera það frá því að þau eru ungar. Hinsvegar eru þeir mjög forvitnir og koma og kíkja á mann ef maður er að labba framhjá, mínum finnast líka mjög gaman að fá að koma inn á eldhúsborð (í búrinu) og vera í kringum fólk. Finkurnar mínar hafa mjög gaman af tónlist hvort sem það er útvarpið eða píanóið og syngja gjarnan með eða ‚meepa‘.


Matur
Matur er mikilvægur eins og hjá öllum dýrum. Það er best að skipta um vatn og mat daglega (eða bæta við mat). Grunnfóðrið hjá finkum er fræblanda en er gott að bæta eggjafóðri við sem fæst í flestum dýrabúðum. Ég harðsýð einnig hænuegg handa þeim öðru hverju og gef þeim með skurn og öllu (stappað niður samt) og finnst þeim það mjög gott og er góð næring í því. Einnig er gott að gefa þeim ‚millet‘ sem er einhverskonar kornstöng sem hengt er upp í búrið þeirra, þeim finnst það æði. Fyrir utan það er ég með ‚cuttle bone‘ sem gefur mikla næringu og gef þeim grænmeti og ávexti öðru hverju. Mínir fuglar eru vitlausir í salatblöð.


Varp
Mælt er með því að fuglarnir séu orðnir 6-9 mánaða gamlir áður en það er farið að leyfa þeim að verpa. Sumar finkur byrja sjálfar en mínar fóru ekki að pæla í þessu fyrr en ég setti hreiður inn til þeirra og hreiðurefni. Þá fóru þau að dúlla sér við að raða í hreiðrið, ég keypti efni hjá honum Tjörva en þeim finnst líka gott að nota niðurrifnar eldhúsrúllur. Þau eiga það líka til að troða öllum fjandanum í hreiðrið, þar á meðal mat.

Maður verður ef til vill var við að fuglarnir séu að para sig, en þá breytast hljóðin í þeim og kallinn fer uppá konuna í nokkra stund. Þetta varir aðeins í nokkrar sekúndur. Nokkrum dögum seinna er mjög sennilegt að fyrsta eggið komi. Ég lenti í því að finkan mín verpti á gólfið en ég setti það upp í hreiðrið og þá fattaði hún að verpa hinum eggjunum þar. Það koma um það bil eitt egg á dag þar til hún klárar þetta varp. Algengast er að fá um 3-6 egg en þau geta verið færri eða fleiri. Finkurnar byrja að liggja á eggjunum í kringum 3 eggið eða þess vegna ekki fyrr en öll eru komin.

Hægt er að sjá hvort að eggin séu frjóvguð með því að nota lítið vasaljós eða halda þeim upp við ljós. Best er að þvo sér vel um hendurnar áður eða nota hanska eða pappír til að halda á eggjunum, ef það er um opið hreiður að ræða þá dugar að lýsa eggin upp í hreiðrinu. Ef eggið er frjóvgað má sjá litlar æðar og rauð/gulleitt egg og jafnvel hjartslátt. Hérna eru frábærar myndir af ‚egg candling‘ eins og þetta kallast, reyndar ekki zebra finkur en það sést það sama. http://www.finchforum.com/viewtopic.php?f=5&t=8295

Ef eigandi er með par en óskar ekki eftir ungum, skal ekki gefa fuglunum hreiður og fjarlægja öll egg sem gætu komið.


Ungar
Um 12-15 dögum eftir að finkurnar byrjuðu að liggja á má búast við ungum. Það getur tekið aðeins lengri tíma en ef það er liðið meira en 20 dagar má búast við því að eggin séu ófrjóvguð eða ungarnir hafi dáið í eggjunum.

Ungarnir sem koma út eru mjög litlir og bleikir með smá fiðurkusk hér og þar. Þeir klekjast ekki endilega út allir á sama degi og foreldrarnir liggja ennþá á þeim og öðrum eggjum til að halda á þeim hita. Þeir eru blindir og gera lítið annað en að biðja um mat og sofa. Fyrstu 1-2 dagana lifa þeir á forða úr egginu þannig ef foreldrarnir byrja ekki að gefa þeim strax þarf ekki að hafa áhyggjur. Brátt fer að heyrast tíst frá þeim þar sem þeir biðja um mat. Það er því mikilvægt að hafa nóg af mat í búrinu.

Eftir viku eða svo fara ungarnir að fá fjaðrir og augun fara að opnast. Þær fara að líkjast ungum meira en halda sig enn í hreiðrinu þó að þeir fara að skoða sig aðeins meira um.

Þegar þeir eru orðnir um 3 viku gamlir þá fara þeir að yfirgefa hreiðrið og skoða umhverfið í kring. Þeir byrja að læra að sitja á prikunum í búrinu og fljúga þó að það geti tekið nokkra daga. Ungarnir eru vanalega mjög gæfir á þessu tímabili, sennilega af því að þeir vita ekki betur. Þeir læra af foreldrum sínum en þurfa samt enn að fá mat frá þeim.

Vikur seinna eða svo þegar þeir eru um mánaða gamlir fara þeir að borða sjálfir. Þeir eru orðnir nokkuð sjálfstæðir og má færa þá úr búri foreldrana þó að það megi bíða í 1-2 vikur. Gott er að taka hreiðrið út til að fá ekki annað varp strax aftur. Brátt fara ungafjaðrirnar að víkja fyrir fullorðinslitunum.

Það þarf svo að taka ungana frá foreldrunum og setja í búr eftir kyni, þar sem systkini og þess vegna foreldrar og ungar gæti farið að parast og það virkar ekki meðal þessara fugla. Það myndi bara enda með eggja og ungadauða.
Þá er alltaf hægt að halda ungunum, gefa þá, selja þá eða selja dýrabúðum.

Að lokum nokkrar frábærar heimasíður.

http://www.finchinfo.com/birds/finches/species/zebra_finch.php

http://www.finchniche.com/index.php

http://www.efinch.com/index.htm

og heimasíða fuglanna minna: http://www.blaka.bloggar.is


Ég hef aðeins átt finkur í nokkra mánuði svo ef einhver sem hefur meira vit en ég vill leiðrétta mig eða bæta við þá er það velkomið :)
kveðja Ameza