Eftirminnileg keppni - Spa 1998 Rambaði á eitthvað gamalt formúlu dót um daginn og datt í hug að lífga upp á þetta áhugamál og hita upp fyrir tímabilið með því að rifja upp eina eftirminnilegustu keppni sem ég hef séð. Reyndar var þetta ein af fyrstu keppnunum sem ég fylgdist eitthvað með – en þvílík baktería sem ég var haldin næstu árin.

Þessi eftirminnilega keppni er vatnsflaumurinn mikli og árekstrarnir miklu á Spa Francorchamps brautinni í Belgíu árið 1998.


Andrúmsloftið var nokkuð eldfimt strax frá því að æfingar hófust þar sem sprengjuhótun hafði borist frá hryðjuverkahópi sem reyndar var ekki tekin mjög alvarlega.

Í frekar köldu en nokkuð þurru veðri höfðu McLaren mennirnir Mika Häkkinen og David Coulthard nokkra yfirburði á æfingunum þótt Michael Schumacher reyndi að standa í þeim. Jacques Villeneuve keyrði Williams bíl sinn á 290 km/klst hraða inn í dekkjavegg og kallaði það besta árekstur lífs síns og á laugardagsmorgninum lenti Mika Salo á Arrows harkalega utan í vegreið og var flogið með hann til eftirlits á sjúkrahús. Hann var samt kominn aftur áður en tímatakan hófst.

Í tímatökunni náðu McLaren ökumennirnir fremstu línu í rásröðinni, Häkkinen á undan Coulthard. Damon Hill, sem keyrði fyrir Jordan, náði að fylgja eftir ágætis æfingum og tryggja sér þriðja sætið á milli McLaren bílanna og Michael Schumachers.

Á keppnisdeginum mígringdi. Michael Schumacher var ekki ósáttur við það og náði besta tíma á morgunæfingunni.

Þegar bílarnar voru komnir á ráslínuna var reyndar hætt að rigna eins strítt en þó var blautt. Allar vangaveltur um hvernig dekk ökumenn hefðu átt að velja fuku út í veður og vind strax í fyrstu beygjunni þar sem David Coulthard hlekktist á. Hann hringsnerist og rann stjórnlaus yfir brautina sem endaði með 13 bíla árekstri þar sem dekk flugu í allar áttir og mildi þótti að enginn, hvorki ökumaður né áhorfandi, skyldi slasast.

Tæpum klukkutíma síðar voru 18 ökumenn mættir á ráslínu á ný. Damon Hill náði mjög góðu starti á meðan McLaren bílarnir sátu eftir og leiddi guli Jordan bíllinn keppnina. Häkkinen og Michael Schumacher voru hnífjafnir í fyrstu beygjunni. Bílarnir rákust saman með þeim afleiðingum að Häkkinen snerist á brautinni. McLaren bíllinn var í vegi fyrir Johnny Herbert á Stewart-Ford bíl sem keyrði annað hjólið undan Finnanum. Báðir þurftu að hætta keppni og öryggisbíllinn var kallaður út.
Í þriðja hring var keppnin gefin frjáls á ný og Damon Hill reyndi sitt besta til að halda Michael Schumacher fyrir aftan sig. Schumacher komst fram úr á 9. hring og tók við forystunni.

Aftur fór að rigna og ökumenn flykktust inn á viðgerðarsvæðið til að láta setja full regndekk undir bíla sína. Schumacher hélt lengur út en margir á milligerð af dekkjum og náði að byggja upp ágætis forskot.
Á 25. hring var Schumacher kominn með 35 sekúndna forskot og var komin að því að hringa Coulthard sem hafði endað neðarlega í röðinni eftir samstuð við Alexander Wurz á Benetton. Coulthard annað hvort sá ekki rauða Ferrari bílinn fyrir aftan sig eða skeytti engu um hann. Schumacher otaði hnefanum og Jean Todt skammaði Ron Dennis fyrir að segja Coulthard ekki að hleypa Schumacher framhjá. Skyndilega hægði Coulthard á sér og Schumacher keyrði beint aftan á hann og missti framhjól undan bílnum.

Þegar Ferrarinn á þremur hjólum og afturvængslausi McLaren bíllinn voru báðir komnir inn á viðgerðarsvæðið var Schumacher hamslaus af bræði og ætlaði að “banka Coulthard á þýska vísu,” svo vitnað sé í ódauðleg orð Gunnlaugs Rögnvaldssonar, en aðstoðarmenn náðu að skilja þá að.
Schumacher hætti keppni en Coulthard var seinna sendur út á brautina aftur með nýjan afturvæng.
Stigamissirinn var vissulega sár fyrir Schumacher sem var 7 stigum á eftir Häkkinen í stigakeppni ökumanna og hefði hann komist yfir ef hann hefði unnið keppnina. Atvikið var vitaskuld kært en dómnefnd lét málið niður falla eftir að hafa rætt við báða ökumennina og skoðað myndskeið af því.

Keppnin hélt áfram og á 27. hring var öryggsbíllinn kallaður út á brautina á ný, í þetta skiptið eftir árkestur milli Giancarlo Fisichella sem keyrði Benetton bíl og Shinji Nakano á Minardi. Nú var svo komið að Jordan bílar voru í fyrsta og öðru sæti, Damon Hill rétt á undan Ralf Schumacher. Frakkinn Jean Alesi, sem oft gekk vel í rigningu, var í þriðja sæti á Sauber bíl.
Þetta urðu úrslitin þegar þeir átta ökumenn sem enn voru í keppninni komust í mark. Fyrsti sigur Jordan liðsins var í höfn og það tvöfaldur. Úrslitin urðu því eftirfarandi (í þá tíð fengu bara 6 fyrstu ökumennirnir stig):

1. Damon Hill, Jordan
2. Ralf Schumacher, Jordan
3. Jean Alesi, Sauber
4. Heinz-Harald Frentzen, Williams
5. Pedro Diniz, Arrows
6. Jarno Trulli, Prost (fyrsta stig sem Prost liðið náði)
7. David Coulthard, McLaren Merceded
8. Shinji Nakano, Minardi

Njótið vel!


Heimildir: Grand Prix Belgien. (1998). Formel 1 Highlights 1998, bls. 104-109.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.