Fimleikar: frá byrjun að nýju reglunum! *greinakeppni* Saga

Enska orðið ‘gymnastics’ er komið af gríska orðinu ‘gymnazein’ sem þýðir að “æfa nakinn, eða án klæða”. Og það var einmitt raunin. Þannig var æft og keppt á Ólympíuleikum í Grikklandi til forna allt fram að 393 eftir Krist. Á þeim leikum var keppt í frumstæðri útgáfu af fimleikum eða einungis stökki og gólf seríum. Gólf æfingar svo sem handahlaup, heljarstökk og framflikk, héldust fram um aldir.Á miðöldum sáu dansarar, ferðafólk, líkamslistamenn og hirðfífl um þá skemmtun.

Johann Christoph Friedrich Guts Muths(1759–1839) las bók eftir Jean-Jacques Rousseau og varð það til þess að hann ákvað að fræðast um fimleika bæði til að geta frætt aðra og til að hafa gaman af. Á sama tíma í Svíþjóð var Per Henrik Ling (1776–1839) að búa til æfingar í samræmi við hreyfingareiginleika líkamans og tengdi æfingar á bogahesti við hestamennsku að því leyti að ‘mount’ og ‘dismount’ eru enn notuð í dag, en þau þýða að byrja æfingu og að enda æfingu með afstökki. Sá sem er talinn vera faðir fimleikanna er Friedrich Ludwig Jahn (1778–1852) og er honum eignaður heiðurinn af hraðri dreifingu fimleika útum heiminn. Hann fann uppá bogahestinum og var hann notaður fyrir fótsveiflur og til að stökkva á. Hann uppgötvaði tvíslána til að auka styrk nemenda sinna í efri hluta líkamans og handstöður voru framkvæmdar á henni til að reyna hugrekki þeirra, en fyrst átti tvísláin að vera æfingaráhald fyrir bogahestinn. Jafnvægisslá, svifrá og kaðlar voru notaðir meðfram æfingum og það endaði þannig að svifrá varð viðurkennt áhald í karlafimleikum en jafnvægissláin varð áhald hjá konum. En þegar fimleikamaður drepur þekktan leikritahöfund í þáverandi Prússlandi árið 1819 lætur konungurinn loka öllum fimleikafélögunum og handtaka Jahn. Honum var svo sleppt eftir fimm ára dvöl í stofufangelsi en þá höfðu félagar hans flúið til Bandaríkjanna vegna ótta við handtöku, og þeir höfðu tekið fimleikana með sér. Það var upphafið að fimleikum í Bandaríkjunum. Hægt er að lesa meira um það á Netinu(sjá vef Britannica Online, gymnastics, Friedrich Ludwig Jahn)

Fyrsta fimleikahátíðin var haldin í Coburg árið 1860 og árið 1896 þegar Ólympíuleikarnir voru endurvaktir höfðu þegar átta slíkar hátíðir farið fram með vaxandi þátttöku þjóða frá öllum hlutum heimsins.

Árið 1881 var Alþjóðlega fimleikasambandið stofnað til að hafa yfirumsjón með alþjóðlegum mótum víðsvegar um heiminn. Það skipulagði fyrsta alþjóðlega fimleikamót karla árið 1903 og kvenna árið 1936.

Þegar Ólympíuleikarnir voru endurvaktir árið 1896, voru fimleikar ein af keppnisgreinunum og það voru fimm lið sem tóku þátt og keppt var á fimm áhöldum, bogahesti, hringjum, stökki, tvíslá og svifrá. Í dag er keppt á sex áhöldum og er gólf sjötta áhaldið. Því var bætt við árið 1932.

Fróðleikur

Æfingum í fimleikum er raðað niður í erfiðleikastiganum A, B, C, D, E og súper E-æfingar. A-, B-og C-æfingar eru sérkröfur og þarf í hver röð æfinga að hafa 4 A-æfingar, 3 B-æfingar og 3 C-æfingar og þá (með öllum sérkröfum) ætti upphafseinkun að byrja frá u.þ.b 8,8. D-æfingar og E-æfingar hækka upphafseinkunina upp í 9,9. Eru þær líka oftast æfingar sem innihalda sérkröfurnar. D-æfingarnar eru töluvert erfiðari heldur en þær fyrrnefndu og krefjast mikillar æfingar. D-æfingar eru oft nokkrar æfingar settar saman svo sem kippur beint í flugvél í hringjum eða léttari æfingar framkvæmdar með snúningum eða beinum líkama í stað samanbogins. Þá er röðin komin að E-æfingum sem eru ekki fyrir nema allra bestu fimleikamennina þar sem það þarf gífurlegan styrk og gott samspil milli þessa styrks og jafnvægis fimleikamannsins. Að lokum eru til súper E-æfingar sem eru taldar ómögulegar en þó eru fimleikamenn í auknum mæli að leysa þessar æfingar af hendi með meiri og meiri færni.

Gólfæfing samanstendur aðallega af stökkæfingum samsettum með öðrum fimleikaæfingum svo sem kraft og jafnvægisæfingum, liðleika, handstöðu og hreyfisamtengingum sem mynda samstæða og taktfasta æfingu á öllum gólffletinum (12m x 12m). Það þýðir að fimleikamenn þurfa að koma við í öllum hornum gólfsins. Fimleikamennirnir sýna fram á þessa eiginleika með því að gera ákveðnar æfingar í æfingaseríunum sínum. Þeir sýna fram á liðleika með því að renna sér í splitt einu sinni í æfingunni, sem er þegar fimleikamaðurinn sest niður með aðra löppina beint áfram og hina beint afturábak þannig að þær myndi 180 gráðu horn. Stökkkraft sýna þeir fram á í svokölluðum stökkseríum þar sem tekið er tilhlaup og undirbúningsstökk, sem er annað hvort arabastökk sem er líkt handahlaupi nema fæturnir eru settir saman í handstöðunni, og spyrnt niður í jörðina og þaðan í flikk eða heljarstökk samanbogið eða með beinum líkama og svo til að fá hærra gildi fyrir æfinguna er skrúfum bætt við heljarstökkið og/eða auka heljarstökkum. Það er að segja þeir bæta D, E og ef til vill súper E-æfingum inní seríurnar sínar. Þessar æfingar verða að vera fallega samtengdar og engin stopp í æfingunni. Fimleikamaðurinn hefur einungis 70 sekúndur til að ljúka við æfinguna.

Um bogahest segir í Alþjóðlegu dómarareglunum 2001-2004:
Nútíma æfing á bogahesti er auðkennd með mismunandi sveiflum með fætur sundur og saman. Mismunandi stuðningsstöðum í og gegnum handstöðu með og án snúninga. Hæð bogahestsins er 105 cm frá dýnu, hann er 1,6 metri á lengd og 34-36 cm á breidd, höldurnar eru 12 cm á hæð. (Björn Magnús Tómasson 2001: 16)

Um hringi segir í Alþjóðlegu dómarareglunum 2001-2004:
Æfing í hringjum samanstendur af sveiflum, kraft- og stöðuhlutum í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum. Þessir partar og samantengingar eru framkvæmdir í hangandi stöðu í eða gegnum handstöðu og útfærsla með bienar hendur ættu að vera allsráðandi. Nútíma fimleikaæfing er flokkuð þannig að hún skiptist á milli sveiflu og kraftæfinga eða öfugt. Stálgrindin sem heldur hringjunum uppi er í 5,75 metra hæð frá jörðu og hringirnir sjálfir eru í 2,55 metra hæð. (Björn Magnús Tómasson 2001: 19)

Um stökk segir í Alþjóðlegu dómarareglunum 2001-2004:
Stökkæfingu má fimleikamaðurinn aðeins framkvæma einu sinni, nema í úrslitum þar sem hann verður að sýna tvö stökk úr mismunandi stökkflokkum. Hvert stökk byrjar með hlaupi 25 metra frá hestinum og uppstökki á báðum fótum(með eða án arabastökks) á stökkbrettið með fætur saman og er framkvæmt með snöggri snertingu við hestinn með báðum höndum. Stökkið má innihalda einfaldan eða margfaldan snúning. Hæð stökkhestsins er 135 cm frá gólfi. (Björn Magnús Tómasson 2001: 21)

Um tvíslá segir í Alþjóðlegu dómarareglunum 2001-2004:
Nútíma æfing á tvíslá samanstendur aðallega af sveiflum og flugæfingum sem valdar eru úr öllum sérkröfuflokkunum og framkvæmdar með samfelldum æfingum í hangandi- og stuðningsstöðum. Hæð tvíslárinnar er 175 cm frá dýnu. (Björn Magnús Tómasson 2001: 24)

Um svifrá segir í Alþjóðlegu dómarareglunum 2001-2004:
Nútíma æfing á svifrá verður að vera útfærð af krafti og með tengingar sem samanstanda af sveiflum, snúningum, flugæfingum og með æfingar á milli sem eru að og frá ránni með fjölbreyttar handaskiptingar sem sýnir að fullu möguleikann á áhaldinu. Hæð svifrárinnar er 255 cm frá dýnu (Björn Magnús Tómasson 2001: 26)

Þegar keppt er í fimleikum er alltaf farið eftir einni ákveðinni röð, nema að mótshaldarar breyti röðinni eftir því hvað kemur sér best í hvert skipti í sambandi við lengd móts og bið milli áhalda. Þessi röð er gólf, bogahestur, hringir, stökk, tvíslá svifrá. Þessi röð er notuð vegna þess að fyrstu þrjú áhöldin reyna ekki á sama hluta líkamans, en seinustu þrjú gera það í sömu röð, þ.e.a.s. gólf er fyrsta áhaldið og reynir það aðallega á neðri hluta líkamans, þar á eftir kemur bogahestur sem er stuðningsáhald fyrir hendur, og að lokum eru hringir sem er hangáhald. Sömu sögu má segja um stökk, tvíslá og svifrá. Ef mörg lið eru að keppa þá byrjar eitt liðið á gólfi og það næsta á bogahesti og endar þá á gólfi og svo framvegis, til að halda sömu röðinni.

Bogahesturinn hefur oftast verið talinn erfiðasta áhaldið, eða það áhald sem meðalmaður gæti gert minnst á. Meðalmaður gæti gert sveiflur á hringjum, tvíslá og svifrá, meðalmaður gæti hoppað yfir kubb eða hest og meðalmaður getur oftast gert einhverja kollhnísa á gólfinu, en bogahesturinn krefst gríðarlegrar tækni, styrkleika, nákvæmni og síðast en ekki síst tilfinningu fyrir hestinum. Þegar fimleikamaður gerir æfinguna sína á bogahesti gerir hann marga snúninga og “kretsa”, sem er æfing þegar fimleikamaðurinn lætur líkama sinn snúast einsog hálfgerðan þyrluspaða, og útfærir þessa “kretsa” sem labb yfir bogahestinn og þá er þörf á að vita hvar á að setja hendurnar niður þessa örskotsstundu sem gefst á milli hvers “kretsa”. Það þarf líka styrkleika og þol til að geta haldið út heila æfingu sem hefur hátt gildi, því æfingarnar sem verið er að framkvæma eru oft mjög erfiðar og þreytist fimleikamaðurinn eftir hverja æfingu sem hann gerir í æfingunni sinni og því fleiri æfingar sem hann hefur, því þreyttari verður hann.

Svifrá er líklegast það áhald sem fólk fylgist mest með, enda eru áhættuatriðin þar alveg fyrsta flokks, og svifráin er seinasta keppnisáhaldið ef farið er eftir nákvæmlegri röð áhalda. Áhættusvið svifrárinnar er þegar fimleikamenn gera ákveðnar flugæfingar, en það er þegar þeir hafa gert nokkra risa, sem eru samfeldar sveiflur á svifránni í heilan hring og taka sig svo til og kasta sér með beinum eða samanbognum líkama yfir svifrána og grípa hinu megin. Í þessu flugi sínu geta þeir framkvæmt snúninga eða gert æfingar sem hafa verið leyfðar af alþjóða tækninefnd áhaldafimleika karla.



Heimildaskrá
Vefur Britannicu
http://search.eb.com/ebi/article?tocId=9274713
http://search.eb.com/eb/article?tocId=214700
http://search.eb.com/ebi/article?tocId=9327411&query=gymnastics&ct=
http://search.eb.com/eb/article?tocId=9067634&query=pommel%20horse&ct=
http://search.eb.com/eb/article?tocId=9063728
Saga fimleikanna:
http://www.flickagymclub.com/history.html
The Sport Of Gymnastics
http://users.ox.ac.uk/~ougym/gymnastics.htm
What Is Gymnastics?
http://www.gymnastics.org.au/aboutus/sp_02_whatis.htm
BUSA Code Of Points
http://users.ox.ac.uk/~ougym/menscode.html
Björn Magnús Tómasson, Alþjóðlegu dómarareglurnar 2001-2004, gefin út af FSÍ
Code Of Points, Men’s Technical Committee, gefið út af FIG