Í tilefni næstu helgar - Verslunarmannahelgarinnar - langaði mig bara til að hrista rykið af gamalli grein til að ýta við ykkur öllum og vekja ykkur til umhugsunar þegar þið farið á vit ævintýranna.

Nú er komið að því að þið farið á erótíkurflakk og flandur út um holt og hæðir. Það er þessi tími – verslunarmannahelgin – sem er framundan og nú verða flest allir á faraldsfæti – og sumir á miðfæti – og enn aðrir að misnota miðfót sinn “á öðrum” …

Þegar þið farið nú af stað í útilegur, þjóðhátíð í Eyjum, Akureyri, Galtalæk, Neskaupstað, Kántrýbæ eða bara hvert sem er á landið – í ævintýraleit – þá er um að gera fyrir ykkur að hafa varan á og hafa ýmislegt í huga sem nauðsynlegt er að hafa með í pokahorninu!

Það er næsta víst að flest allir verða með áfengi flæðandi um allt um þessa helgi og munu hugsanlega margir vera að fara á sitt fyrsta fyllerís-flakk svo það er nauðsynlegt fyrir alla að vera varkárir í umgengni og fylgjast vel með. Engin ætti að vera einn á ferðinni því hætturnar leynast alltof víða á þessum fylleríshátíðum. Nú er um að gera að sýna og sanna vináttu sína hvert við annað og gæta þess að vinur/vinkona sé aldrei ein/n á ferðinni útúrdrukkin/n…

Því miður er það nú svo að margur misjafn sauðurinn fer á þessar útihátíðir – bara í þeim tilgangi að finna vel drukkið fórnarlamb sem hægt er að misnota vegna ölvunnar! Með því að leyfa aldrei vini sínum eða vinkonu að ramba um yfirgefin á svona hátíðum, blindfull, heldur skipta sér alltaf af og gæta þeirra sem þið ferðist með – gætuð þið sannað vinskap ykkar og komið í veg fyrir að glæpur sé framinn á þeim.

Þið mynduð vera öruggari ef þið vissuð fyrir víst að einhver úr vinahópi ykkar væri sannur vinur/vinkona og að sá hinn sami myndi aldrei yfirgefa ykkur í neyð. Nú getið þið sýnt og sannað það sama með því að gæta vinar/vinkonu ykkar.

Ef þið eruð mörg saman og alltaf með vakandi hug og auga fyrir því sem er að gerast í kringum ykkur getið þið vel gætt hvers annars án þess að þurfa að vera að eyða allri helginni í einhver barnapíustörf…

Það er svo auðvelt fyrir ykkur að skipta ykkur af og það er betra að skipta sér af einu sinni of oft heldur en einu sinni of sjaldan. Ef þið sjáið eitthvað misjafnt á ferðinni, einhver grunsamlegur á vappi í kringum ykkur, eða bara ef eitthvert ykkar er orðið of drukkið – skiptið ykkur þá af – ekki leyfa hinum drukkna vini/vinkonu að vera stundarkorn einhvers staðar aleinum þar sem hægt er að misnota þau!

Það er ljótt að segja, en samt satt, að það eru alltof margir óþokkar sem fara af stað þangað sem þeir vita af unglingum á fylleríum í þeim erindagjörðum að lokka þá með sér afsíðis eða í bíl eða tjald eða hvert sem er svo þeir geti gert hluti sem ekki er hægt að taka aftur. En með því að sýna sanna vináttu og gæta hópsins, skipta sér af, vera með vakandi auga – öll en ekki bara einhver einn – þá getið þið sannarlega komið í veg fyrir verknað sem engin ætti að þurfa að ganga í gegnum. Ekki skilja einhvern eftir dauðadrukkinn úr vinahópnum í tjaldi og alls ekki á víðavangi – það er bara boð til næsta óþokka sem væntanlega yrði ekki lengi að nota sér tækifærið og þá er fjandinn laus.

Hafið það nú hugfast þegar þið leggið út í hamagang verslunarmannahelgarinnar – að stundarkæruleysi getur kostað vin/vinkonu ykkar mikið. Verið mörg saman – alltaf og alls staðar – og gætið hvers annars. Skemmtið ykkur vel en með varúð og vakandi auga þar sem þið megið vera þess fullviss að það eru því miður margir mismunandi sauðir í kringum ykkur öllum stundum – og sumir þeirra ráða ekki við ljótar hvatir sínar en geta ekkert ef þið eruð sannir vinir og gætið hvers annars!

Munið líka sjálf að dauðadrukkin ein á ferðinni eruð þið auðveld bráð fyrir menn/konur sem ekki sýna neinu virðingu og nauðgun eða annar glæpur er eitthvað sem engin ætti að þurfa að ganga í gegnum eða lenda í … Með vakandi auga og varkárni getið þið sloppið við lífsreynslu sem gæti vel verið eitt það alversta sem hægt er að hugsa sér. Skemmtið ykkur nú vel en farið varlega um verslunarmannahelgina!

Kveðja:
Tigercop sem finnst endilega eins og hann hafi farið í 7 hringi með sama efnið hérna …
En er samt sáttur því það er aldrei of varlega farið þegar unglingar og áfengi eru annarsstaðar og útihátíðir og perrar hins vegar …