Af hverju ekki N-Kórea þegar nokkur ríki eiga nú þegar kjarnorkuvopn? Svarið er einfalt, grimmur einræðisherra er við völd í N-Kórea og hann þyrfti ekki að gera neitt annað en að taka upp símtólið til þess að hefja kjarnorkustríð. Flest ef ekki öll þau ríki sem eiga kjarnorkuvopn í dag hafa mjög stranga löggjöf um notkun þeirra, t.d. að þau megi ekki nota nema sem seinasta úrræði í styrjöld. Jafnvel í miðju stríði gæti Bandaríkjaforseti ekki fyrirskipað kjarnorkuárás nema fá nokkrar undirskriftir auk þess að visst neyðarástand þyrfti að vera sem réttlæting. Einnig eru Sýrlendingar og Íranar bandamenn N-Kóreu sem þýðir að Jihadistar þaðan gætu vopnað sig kjarnorkusprengjum í árásum þeirra gegn Ísrael og vesturlöndum, slík árás gæti komið á heimsstyrjöld. Við erum að tala um land þar sem börnum er kennt í skóla að þjóðin eigi að undirbúa sig fyrir útrýmingu Bandaríkjanna í framtíðinni.

Ég segi allt eða ekkert. Hefðbundnar refsiaðgerðir munu aðeins bitna á almennum borgurum sem nú þegar búa við hræðileg lífskjör og flýja landið í miklu mæli. Það þarf að fjarlægja einræðisherrann og helst á næstu vikum eða mánuðum. Þó N-Kóreumenn séu búnir að sprengja tilraunasprengju þá er tæknin líklega ekki orðin það þróuð hjá þeim að þeir séu tilbúnir í kjarnorkuárásir á önnur ríki. En hinsvegar styttist í það og því er mikilvægt að hefja undirbúning aðgerða strax í dag en ekki fara í kokteilboð hjá Sameinuðu Þjóðunum og ræða “mögulegar refsiaðgerðir” í framtíðinni. T.d. í Írak hafa fleiri látið lífið af refsiaðgerðum heldur en stríð við önnur ríki og fjöldamorð Saddams til samans. Ég finn samt til með almennum borgurum í N-Kóreu og vona að mannfall verði sem minnst ef farið verður út í stríð. En þegar kemur að heildarmyndinni bæði fyrir N-Kóreumenn, nágrannaríki og heimsbyggðina tel ég enga aðra lausn vera en að fella einræðisstjórn Kim Jong II.