Að beiðni umsjónarmanna, birtist greinin hér á réttum forsendum. Endilega haldið áfram umræðum.

Kæri Múr,

Vlad Tepes heiti ég og vinn við að lesa bækur og skrifa um þær. Ég hef búið á Íslandi hálft mitt líf, stundað háskólanám hér á landi, er með íslenskan ríkisborgararétt, á fjölskyldu, og vinn fulla vinnu, þ.e.a.s. ef það að lesa bækur og skrifa um þær telst vera vinna.

Nýlega, á síðastliðnum vikum, hef ég fengið ónotatilfinningu af því að ganga um götur borgarinnar. Það er ekki vegna kuldans, heldur vegna einhvers öðruvísi viðmóts fólksins en áður var. Fyrir tveimur dögum var hreytt í mig af manni úti á götu að ég væri blóðsuga, blóðsuga á íslensku hagkerfi. Ég spurði á móti hvernig í ósköpunum stæði á því. „Þið Pólverjarnir! Komið hingað til þess að vinna, græða smá monní, skapið vandræði, og hverfið svo aftur austur fyrir tjald. Þið eruð að ræna frá okkur peningunum!“ Það skrítnasta við þetta var að maðurinn var vel til fara, hélt á skjalatösku og var með farsíma nánast límdan við lófann. Einhvern veginn bjóst ég alls ekki við að heyra þetta frá honum. Ég botnaði heldur ekki í orðum hans, því í fyrsta lagi er ég ekki Pólverji, og í öðru lagi hugnast mér ekki að flytja frá Íslandi. Í framhaldi af þessu fór ég að velta því fyrir mér hvernig í ósköpunum þetta gæti allt í einu gerst, að ókunnugur maður vogaði sér annað eins. Þá kveikti ég á perunni.

Á sunnudegi, fyrir nokkrum vikum, japlandi á lifrapylsu og harðfiski í makindum mínum kveikti ég á sjónvarpinu. Þar var hinn sívinsæli spjallþáttur Silfur Egils. Mér hefur alltaf fundist þetta skemmtileg vísun í íslenska bókmenntahefð. Egill – Egill, Silfur – Silfur, æ þú veist. En allavega, þarna voru þrjár konur og einn maður sem spjölluðu um stjórnmál. Ég dottaði, enda stjórnmál ekki endilega það sem hrífur mig mest. Ég hrökk svo við þegar karlmaðurinn sagði: „þetta fólk!“ Hann var þéttur, klæddur í grá jakkaföt og með rautt bindi. Hárið var stíft, næstum burstaklippt, kollurinn aflitaður. Í svefnmókinu fannst mér örskotsstund að þarna væri Hermann Göring á ferð. Sem betur var það ekki hann, heldur þingmaður úr minnsta flokknum á Alþingi. Flokkurinn reynir víst alltaf að finna sér einhverja sérstöðu rétt fyrir kosningar, til að tóra. Ég verð að segja að þetta finnst mér skrítin aðferð.

„Þetta fólk“? Er ég flokkaður undir það? Um hverja er verið að tala? Burstaklippti maðurinn hélt áfram og sagði nákvæmlega það sama og skjalatöskumaðurinn, nema hann fór aðeins fínna í hlutina. Ég fékk óbragð í munninn, það var ekki harðfiskurinn. Sjálfsmynd mín hefur á einhvern undarlegan hátt verið sködduð frá því að þessi þingmaður hóf upp raust sína. Í kjölfarið hefur farið fram umræða í öllum mögulegum miðlum, úr öllum áttum, um innflytjendur og útlendinga; um vandamálin sem fylgja, um hvernig íslenskt hagkerfi sé að sligast vegna þess, og um vaxandi glæpi vegna innflytjenda. Telst ég vera innflytjandi, og fell ég undir flokkinn „þetta fólk“, ef ég hef búið hér, menntað mig og starfað í tæp 20 ár? Í versta falli myndi ég skilja mig frá hinum sem maður af erlendum uppruna. Eða er þetta bara af því að ég les bækur og skrifa um þær? Nei, eflaust ekki. Svo ég ákvað að grennslast örlítið fyrir.

Það er víst þannig að um 10% af landsmanna eru af erlendum uppruna. Einhver könnun um glæpi var gerð í kjölfar umræðunnar. Þar kom fram að einungis 3% af skráðum glæpum síðastliðin ár hafa verið framin af fólki af erlendum uppruna. Þannig að hin 97% liggja hjá „hreinræktuðum“ Íslendingum. Hvernig má vera að umræða, í upplýstu þjóðfélagi eins og Ísland er, sé á svona lágu plani? Eða er þetta ekki annars upplýst þjóðfélag?

Svo er það hagkerfið. Ef það er eitthvað að sligast, er það ekki vegna verðbólgu í kjölfarið á einkavæðingu bankanna og annarra fyrirtækja? Þó ég lesi mikið af bókum, fylgist ég líka með fréttum. Það er eins og að fólk sem skrifar allar þessar greinar um innflytjendamál hafi ekki fylgst með fréttum síðastliðin ár. Nema það sé svona fljótt að gleyma.

Talandi um glæpi og þingmenn. Var ekki þarna náunginn frá Vestmannaeyjum að komast aftur inn á þing? Var það ekki hann sem dró til sín peninga til þess að múra eitthvað á sinni lóð. Kæri Múr, ég einfaldlega skil þetta ekki. Er alvarlegra að lesa bækur og fá peninga fyrir það, heldur en að þingmaður steli peningum? Undanfarið hefur skringilegt samviskubit nagað mig. Er ég blóðsuga? Er ég ekki velkominn hér á landi? Þessi óþægindi mín og þessar spurningar hafa vaknað vegna þess að pínulítill flokkur ákvað að hefja upp ógrundaða umræðu, til þess að hala inn atkvæði frá þeim sem eru með vanþekkingu á málinu. Þessi vanþekking bitnar svo á öllu fólki á Íslandi af erlendum uppruna. Atkvæðin, eru þau ekki annars rót þessa uppþots – eða skil ég ekki gangverk stjórnmálanna rétt?

Mér finnst þetta vera að fara út í öfgar. Þessi furðulega umræða hefur farið út fyrir blöðin og netið. Það sem verra er, umræðan hefur breyst í ómótaðar skoðanir, frekar en mótaðar, þar sem fólk tjáir sig meira um málið, og er jafnvel óhrætt við að sýna það – eins og í tilviki skjalatöskumannsins. Fólk tjáir sig um málið jafnvel þó að mikil vanþekking sé fyrir hendi. Ég fer bráðum að halda að þetta hafi verið Göring sjálfur í sjónvarpinu á umræddum sunnudegi, því svo sannarlega hefur einhverju mjög slæmu verið ýtt úr vör.

Hvað ætti ég til að bragðs að taka? Bráðum verður örugglega gefið veiðileyfi á „þetta fólk“, og það virðist sem ég sé í þeim hópi. „Þetta fólk“ fær skutul í bakið frá þjóðinni sem hélt sig vera svo opinskáa og upplýsta. Kæri Múr, eru einhver svör? Er viðreisnarvon, þótt það sé ekki nema fram að kosningum?

Kveðjur og með von um svör,
Vlad Tepes, doktor í bókmenntafræði og Múraðdáandi

Greinin birtist 17. nóvember 2006 á vefritinu murinn.is