Það sem var algjörlega nauðsynlegt fyrir mig fyrir mína aðra fæðingu (og það sem gerir hana betri og auðveldari en fyrri fæðinguna) var undirbúningur! Því betur sem kona/par eru undirbúin fyrir fæðinguna, því meiri líkur eru á því að allt gangi vel.

Ég mæli með fyrir allar verðandi mæður að fara í Meðgöngujóga. Sjálf fór ég til hennar Auðar í Lótus Jógasetri en hún er alveg uppfull af visku og fróðleik og tímarnir hennar eru æðislegir. Þar læriru slökun, heyrir fæðingarsögur, spjallar við aðrar verðandi mæður á öllum stigum meðgöngunnar og heyrir reynslusögur frá þeim og fleira. Einnig er í boði parakvöld þar sem kallarnir koma með og þeir læra aðeins hvað jóga er og hvernig hægt er að nýta sér það í fæðingunni, þeir læra að nudda konurnar og margt fleira. Þetta kvöld er í rauninni bara dekurkvöld fyrir parið og ég mæli alveg hiklaust með því (sérstaklega ef maðurinn er frekar ókunnugur þessum hlutum og kannski frekar ónæmur á tilfiningar konunnar á meðgöngunni). Meðgöngujóga er líka í boði í Mecca Spa sem ég hef einnig heyrt góða hluti af og svo eru nýjar jógastöðvar að spretta upp hér og þar sem bjóða uppá meðgöngujóga einnig, en sjálf hef ég ekki reynslu af þeim stöðum.

Einnig fannst mér gott að horfa á vídjó og þá horfði ég sérstaklega á heimafæðingarvídjó því það var mitt plan, en einnig er gott að horfa bara á sem mest til að sjá fjölbreytnina. Það er nóg að fara bara á youtube og slá inn “homebirth, natural birth, beautiful birth, waterbirth” os.frv. Einnig er gott að googla þetta og þá koma upp fullt af meðgöngu- og fæðingartengdum síðum, má þar nefna www.babycenter.com sem ég veit að margar hafa nýtt sér. Af íslenskum síðum má nefna www.natturuleg.net en þar er t.d. heimafæðingarspjall, taubleiuspjall og burðarspjall (þá er verið að tala um svokölluð burðarsling), fróðleikur um þetta allt saman sem og fæðingarsögur og aðrar reynslusögur. Draumabörn er síðan mjög góð síða, þar eru bumbuhópar og allskonar aðrir hópar fyrir foreldra, verðandi foreldra, fólk sem er að reyna, þau sem stríða við ófrjósemi og fleira. Mjög góð síða og gott að komast í kynni við aðrar konur/annað fólk sem er að ganga í gegnum það sama og maður sjálfur.

Svo er nauðsynlegt að lesa sér til, því meira sem þú lest, því betra. Þá er ég bæði að tala um bækur og reynslusögur kvenna af fæðingum, öllum fæðingum!

Bækurnar sem ég las voru t.d. Ina May's Guide to Childbirth eftir Ina May Gaskin, en hún er svona “ljósmæðra-legend”. Þessi bók er byggð upp þannig að fyrri hlutinn eru fæðingarsögur, allt frá ca. 1970 til dagsins í dag. Seinni hlutinn er síðan allt um meðgönguna, fæðinguna, gagnrýni á kerfið (í Bandaríkjunum), hvað gerist í fæðingu (líffræðilega), hvaða hormón eru að verki og hvernig er hægt að hafa áhrif á þau, slökunarráð, hverskonar líffæri eru legið og fylgjan og ýmiss annar fróðleikur.

Önnur bók eftir sömu ljósmóður er einnig mjög góð en hún heitir Spiritual Midwifery. Hún er svipuð en hún er meira byggð upp sem kennslubók fyrir ljósmæður. Ég valdi bara góða kafla úr bókinni sem mér fannst henta mér.

Önnur mjög góð bók er Birth Your Way eftir Sheila Kitzinger. Þar er farið yfir spítalafæðingar vs. heimafæðingar/fæðingarheimili (birth center). Allir möguleikar eru kynntir og útskýrðir. Farið er yfir allar hættur sem fylgja fæðingum (heima og spítalafæðingum), deyfingum ofl. Þessi bók er mjög góð, mjög vel upp sett, skýr og þægilega skrifuð. Allar þessar bækur ættu að finnast á bókasöfnum, annars er hægt að kaupa þær í Bóksölu Stúdenta.

Íslenskar bækur sem gott er að lesa eru t.d. Pabbi - Bók fyrir verðandi feður eftir Ingólf V. Gíslason. Ég las hana með kallinum á seinustu meðgöngu og mér fannst hún mjög góð, ekki bara fyrir hann heldur mig líka. Hún útskýrir svolítið fyrir köllunum hvað er eiginlega að gerast hjá okkur á meðgöngu, líkamlega og tilfiningalega. Fer yfir fæðingarorlofið og högun þess og fleira. Mjög skemmtileg lestning og gaman að lesa bók frá sjónarhorni karlmannsins.

Upphafið - Bréf til þín frá ljósmóðurinni þinni eftir Huldu Jensdóttur. Hulda er mjög reynd ljósmóðir sem hefur starfað sem slík mjög lengi, og er alveg uppfull af fróðleik og visku. Hún kemur inn á alla hluti tengda meðgöngu og fæðingu, sem og eftir fæðinguna. Mjög falleg og vel skrifuð bók.

Árin sem enginn man eftir Sæjunni Kristjánsdóttur. Hún er ekki beintengd meðgöngu og fæðingu heldur er hún meira um allra fyrstu ár barna og áhrifin sem þau hafa á fullorðið fólk, þrátt fyrir að það man ekki einu sinni eftir þeim. Hún kemur reyndar líka inn á meðgönguna og fæðinguna og talar mjög opinskátt um líðan verðandi foreldra, ástæður fyrir barnsburðinum, aðskilnað móðurs og barns og fleira. Ef þú ert foreldri þá áttu að lesa þessa bók. Hún lætur þig sjá hlutina í öðru ljósi, eitthvað sem maður gerði sér ekki alveg grein fyrir.

Þetta kann að hljóma fyndið en ég mæli einnig með Stóra Kvennafræðaranum eftir Miriam Stoppard, gefin út af Iðunni árið 1988 (en hún er fyrst gefin út 1982 í London). Tengdamóðir mín kom mér algjörlega á óvart þegar hún gaf mér þessa bók fyrir ekki svo löngu síðan. Ég get þó viðurkennt að ég var ekki alveg ókunnug þessari bók því mamma á hana líka (allavega einhverja Kvennafræðarabók), og ég sem forvitinn unglingur gluggaði í hana á kvöldin. En í þessari bók er kafli um meðgönguna og fæðinguna og ég var bara svo hissa, þetta var svo flottur texti að ég verð eiginlega að mæla með henni. Þrátt fyrir að hún sé þetta gömul þá eru þetta enganvegin glötuð vísindi, eiginlega finnst mér hún betri en margur annar nútíma fróðleikur sem konum eru gerð skil á í dag. Reyndar er kaflinn um deyfingarnar kannski sá helsti sem farinn er að láta á sjá.

Ég var síðan svo heppin að á þessari meðgöngu var akkurat Frönsk Kvikmyndahátíð í gangi, sem var að sína mynd sem heitir Le Premier eða Frumgráturinn á íslensku. Hún sýnir fæðingar úr öllum menningarheimum, spítalafæðingar sem og heimafæðingar, með og án ljósmæðra og einnig í afskekktum hlutum heimsins. Mjög flott, fræðandi og falleg mynd. Þær sem hræðast fæðingar ættu að sjá hana, hún eyddi allavega öllum mínum ótta. Ég veit reyndar ekki hvort hún kemur út á DVD, en ef svo þá ætla ég að kaupa hana!

Tilgangurinn með þessu öllu saman er síðan að eyða hræðslunni. Það eina sem konur fá að heyra um fæðingar eru einhverjar hræðslusögur, hálfgerðar hryllingssögur. Þær gera það að verkum að konur halda að fæðing sé eitthvað rosalega vont, svo vont að ekki sé hægt að ganga í gegnum hana án einhverja lyfja eða deyfinga. Það sem mér fannst langbest við að lesa erlendu bækurnar var að fá nákvæmar útskýringar á deyfingunum og áhrif þeirra á konuna, barnið, tengslamyndunina og brjóstagjöfina. Nú gagnrýni ég ekki þær konur sem kjósa að nýta sér þessar deyfingar, en mér finnst algjörlega vanta fræðslu um þessi mál og mér finnst umræðan um fæðingar helst einkennast af ótta, búinn til af læknum og öðru fólki sem er búið að sjúkdómvæða fæðinguna. Fæðing er eðlileg, ef ekki eitthvað það eðlilegasta sem fyrirfinnst í þessum heimi og hana á ekki að hræðast eða líta á sem einhvern sjúkdóm. Með góðum undirbúningi ertu ekki bara að undirbúa betri fæðingu, heldur ertu líka betur undirbúin ef eitthvað kemur uppá. Sama hvernig fæðingin fer er síðan alltaf gott að ræða hana eftir á, við ljósmóðurina og/eða manninn þinn. Margar konur bera með sér sársauka í hljóði eftir upplifun fæðingarinnar en átta sig kannski ekki fyllilega á því. Með því að tala um það sem fram fór, hvert var planið, hvað fór úrskeiðis os.frv. hjálpar konunni að komast í gegnum sængurleguna og sætta sig við hvernig fór. En það er líka gott að tala um fæðinguna ef vel tókst til, það er gaman að heyra sjónarmið ljósmóðurinnar eða mannsins frá manns eigin, engir tveir upplifa sömu fæðinguna á sama hátt.

Gangi ykkur öllum vel :)