Eins og þið vitið þá hefur verið tiltölulega rólegt á þessu áhugamáli um skeið. Þegar Blýfótur var stofnaður af nokkrum stórnotendum og stjórnendum hér þá datt áhugamálið niður.

Þeir sem voru duglegastir að skrifa greinar voru komnir þangað.

Það er sagt að maður komi í manns stað. Við höfum helling af notendum en fáir virðast treysta sér til að skrifa greinar. Þetta er ekkert flókið, maður sest bara niður og skrifar ritgerð um það sem maður hefur áhuga á.

Flestir hér eiga sinn draumabíl. Sumir eru jafnvel búnir að eignast hann. Aðrir hafa kynnst bílum foreldra sinna eða annarra ættingja og vina. Því ekki að setjast niður og skrifa um þetta.

Áður en sest er niður við skriftir þá ættu menn að skoða reglurnar sem birtast á forsíðu áhugamálsins. Þar eru leiðbeiningar um greinar. Við samþykkjum þær ekki ef þær uppfylla ekki skilyrðin. Það er ekki aðeins fyrir áhugamálið heldur er illa unnin grein ávísun á leiðinlega gagnrýni. Vel unnin grein skapar hinsvegar umræðu.

Þegar ég skrifa greinar þá tek ég yfirleitt fyrir eitthvað ákveðið efni. Greinin er ekki endanlegur sannleikur heldur til að skapa umræðu. Oft vita lesendur eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um og koma með ábendingar. Stundum ber heimildum ekki saman og þá er hægt að rífast hressilega :)

Ef menn setja markið hátt þá væri ekki úr vegi að lesa úrvalsgreinarnar og kanna uppbyggingu þeirra. Þær greinar hafa verið taldar skara framúr að einhverju leiti, og eflaust hægt að læra eitthvað af því.

Hinsvegar er okkur meinilla við copy/paste greinar. Það að taka texta annars og senda hann inn undir sínu nafni er ritstuldur. Það má samt senda inn grein eins og heimildarritgerð og vitna í texta annars. Að taka beint upp án þess að geta heimilda er hinsvegar ritstuldur.

Meginmálið verður samt að vera frá þeim sem sendir greinina inn.

Ég skora því á ykkur (þá sem þora) að skrifa greinar, ekki bíða eftir að einhver annar skrifi eitthvað sem þið getið lesið.

JHG