LADA: Rússnesk verkfræðisnilld! Rússar hafa alla tíð verið álitnir miklir snillingar. Verkfræðikunnátta þeirra er einstök, einsog sést í þeim glæsikerrum sem þekktar eru undir nafninu Lada.

Hverjum öðrum hefði dottið í hug að hann bíl sem gengur vel í 40° frosti, en fer svo ekki af stað í minnsta snjó nema maður fylli skottið af sandi.

Öll mín reynsla af þessum ökutækjum er nú að öðru leiti hin besta, þetta fer í gang án mikilla vandræða, og kemur manni hvert sem maður þarf að fara, meðan enn er vegur undir bílnum, þangað til snjórinn kemur.

Merkilegt að menn hafi hannað bíl fyrir rússneskar aðstæður sem spólar svo bara í snjónum. Allt útlit á bílnum, og hugsum á bakvið hönnunina er hin fjórhjóladrifslegasta, og ekki hægt að segja að þeir hafi ekki kunnað það, því jeppinn frá sama framleiðanda (Lada Niva) er fjórhjóladrifinn. Þetta er hár og “rugged” verkamannabíll, gerður fyrir rússneskar aðstæður, og ætlað að komast þangað sem hann þarf að komast, á vegi allavega.

Þessir bílar kostuðu nýir um 500-700 þúsund krónur í kringum 1990, enda lítið um óþarfa þægindi, þetta er bíll, og ekkert annað en bíll! Ég meina, hver þarf vökvastýri, rafdrifnar rúður eða útvarp, þósvo það síðastnefnda hafi reyndar fylgt dýrari bílunum.

Einnig eru þessir bílar þekktir fyrir lága bilanatíðni, en stutta endingu, en á meðan þeir virka, þá virka þeir rétt.

Ég mæli eindregið með þessum ökutækjum fyrir þá sem vilja fallegan og góðan bíl fyrir lítinn pening, og telja sig ekki þurfa nein auka þægindi, þósvo drifið mætti vera á fremri öxlinum eða jafnvel báðum. Ég mæli þessvegna sterklega með því að vera búinn að henda einhverju í skottið til að þyngja það ÁÐUR en fyrsti snjórinn kemur (ég klikkaði á því, og nú situr bílinn minn fastur í bílastæðinu heima).