Jaguar V12 Hér verður stiklað yfir sögu V12 vélarinnar frá Jaguar.

Fyrst stutt lýsing á nokkrum Jaguar bílum:
E-Type – 2 manna roadster, framleiddur frá 1961-1975 (Shaguar í Austin Powers)
XJS – arftaki E-Type en með aftursætum, framleiddur 1975-1996
XJ12/Daimler Double Six – 4 dyra Jaguar fólksbíll
XJC – 2 dyra XJ.
Framleiðslubíllinn, hér er átt við ofangreinda fjöldaframleidda bíla.

Nokkrar tölur til viðmiðunar yfir V12, athugið að krafturinn fer eftir útfærslu á eldsneytiskerfi en þetta eru algengar tölur:
5.3 322 hö @5500 - 420Nm @3500 - E-Type, XJS, XJ12 (SI & SII)
5.3 HE 295 hö @5500 - 430Nm @3000 - XJ12 (SIII), XJS
6.0 HE 318 hö @5400 - 463Nm @3750 - XJ12 (XJ40 & X300) , XJS, XJR S, XJSC


Hugmyndin.
Frá seinna stríði hafði hin fornfræga XK vél knúið Jaguar. Línu sexa með tveimur yfirliggjandi knastásum sem þjónaði frá 1948 til 1986 (jafnvel lengur í Daimler DS420 limúsínum og ýmsum hernaðarfaratækjum).

Tólfan kom fyrst fram á teikniborðið árið 1954 þegar menn voru farnir að sjá fram á að gamla góða XK vélin gæti ekki haldið Jaguar í toppbaráttunni áfram, bæði í kappakstri sem og á vegum úti.

Fyrsta hugmyndin var að taka tvær 2.5 lítra XK vélar og splæsa þeim saman með 60° horn á milli og samnýta kjallarann. Þessar pælingar voru þó lagðar á hilluna þegar Jaguar dró sig úr kappakstri, allt þar til snemma á sjöunda áratugnum þegar draumar um að berjast við Ford og Ferrari um titla í kappakstri ágerðust ásamt þörfinni á nýrri vél.


Þróunin.
Hún var fyrst smíðuð árið 1963 sem 4.4 lítra quad cam álvél fyrir XJ13 (hugmynda-) kappakstursbílinn, bíllinn stóð sig ekki þrátt fyrir feikilegan árangur og möguleika vélarinnar. Vélin ‘svaf’ því fram til 1968.

Við prófanir var fyrst reynt að nota heddið af 6 cyl XK línuvélinni (þó hannað fyrir talsvert lengra slag) en það var engan vegin að skila sínu í tiltölulega slagstuttri tólfunni. Vegna þess hve slagstutt hún var gerði það hana jafnframt hæfari til mikils snúnings.
Upphaflega var tólfan hugsuð DOHC hverjum megin en frá því var horfið fyrir framleiðslubílana. SOHC varð hún léttara, einfaldari og hljóðlátari. Raunin varð einnig sú að SOHC togaði betur en DOHC á miðju snúningssviðinu og hæfði því betur áreynslulausum akstri.
Walter Hassan hjá Coventry Climax (dótturfyrirtæki Jaguar Cars) var helsti hönnuður á þessum árum.

Miðað við XK vélina fór tólfan fyrst að sýna yfirburði sína þegar henni var snúið upp í allt að 8.000 snúninga (hvernig ætli V12 hljómi á slóðum VTEC?).
Rauða strikið var þó sett við 6500 sn vegna þeirrar einföldu ástæðu að vélin gat ekki með auðveldum hætti sogað inn loft nógu hratt til að það væri verjandi að fara hærra. Einnig mátti þá nota mýkri ventlagorma til að draga úr hávaða. Niðurstaðan varð því 322hö og 420Nm tog. Vegna þess að hún er öll úr áli er hún aðeins 40 kílóum þyngri en XK vélin en talsvert fyrirferðarmeiri.
12 cylindra vél sem snýst 6000 snúninga á mínútu er með aðeins 1.4 þúsundustu úr sekúndu á milli neista. Engin furða þó kveikjukeflin voru höfð 2.


Þróaðar voru á sínum tíma tvær 48 ventla vélar, ein fyrir umferðina og ein fyrir kappakstur og náði sú síðarnefnda 630 hö (5,3l). Hún var hún lánuð til TWR á níunda áratugnum þegar þeir voru sjálfir að þróa 4 ventla tækni sína. Eins fáránlega og það hljómar þá endaði hún sem járnrusl eftir að hafa verið rifin í frumeindir. Það skyldi þó aldrei vera að á einhverri partasölu í Bretlandi sé þessi vél til!


Aftur að bílunum.
E-Type sem knúinn var af XK vélinni og hafði náð yfir 240km hraða 1961 komst varla yfir 210 vegna sí harðari krafna um mengunarvarnir. Hestöflunum hafði fækkað úr 265 niður í rétt um 200. Að smella tólfu ofan í vélarrými hans var rökrétt framhald. Upphaflega átti að bjóða uppá báðar vélarnar samhliða en vegna vinsælda tólfunnar voru árið 1971 einungis framleiddir 3 6 cylindra bílar.

XJ fæðist
Árið 1968 var stórt ár í sögu Jaguar. Þá kom fyrst fram á sjónarsviðið XJ bíllinn. Stóru saloon bílarnir bera enn þann dag í dag stafina XJ. Fyrsti XJ bíllinn átti að frumsýna hina nýju 12 cylindra vél en sökum tafa í framleiðslu og þróun kom hún ekki fyrr en 4 árum síðar og varð því XK vélin að ‘duga’.

Fyrstur götubíla til að skarta nýju vélinni varð Sería 3 ‘E’ týpunnar. Það var við hátíðlega athöfn í Palm Beach Flórída, 25 mars 1971. Þetta nýja hjarta kom bílnum á yfir 250km. hraða á klst og þá með fjórum Stromberg blöndungum. Hún var þá 5343cc(326cu in), 90x70. Árið 1977 kom svo loks innspýtingin.

Mikið var skrifað og dáðst af þessari listismíð sem tólfcylindra bílarnir frá Jaguar voru.
Vélin var svo þýð og hljóðlát að verksmiðjurnar þurftu að setja sérstakan stoppara í svissinn vegna þess að menn voru að reyna að starta aftur þegar vélin var í gangi. Í einu bílablaði stóð: ‘Sem betur fer er snúningshraðamælir í bílnum því annars væri ómögulegt að greina hvort vélin væri í gangi eður ei’.


V12 vélin frá Jaguar hefur aldrei verið þekkt fyrir sparneytni. Sjálfsagt hefur blöndungsútfærslan verið að fara með amk 30+ lítra á hundraðið innanbæjar. Þegar olíukreppan stóð sem hæst fjarlægðu sumir eigendur XJ12 bílanna merkið og settu frekar XJ6 svo skemmdarverka- og öfundarhyski léti síður til skara skríða.


Þó vildu menn gera betur.
Árið 1980 var swissneski verkfræðingurinn Michael Mays (þá þekktastur fyrir vinnu sína fyrir Porsche) fenginn til að endurhanna heddið með minni bensíneyðslu að markmiði. Barnið fæddist ’82 og var skýrt Fireball HE (High Efficiency). Eyðslan hafði minnkað um þriðjung því bensínið blandaðist betur lofti og þjappan varð hærri (allt upp í 12.5:1). Vélin sjálf hélst nokkurnvegin óbreytt allt þar til hún var stækkuð í 6 lítra (90.0x78.5) í kringum ‘89, ef frá er talið kveikjukerfi o.þ.h. Þjappan var þó lækkuð smátt og smátt, 11.5:1 fyrir hvarfakút og að lokum ‘niður’ í 11:1.
Fyrir HE var hún 9:1 fyrir Evrópumarkað og 7.8:1 fyrir Ameríku. Gaman er að geta þess að við hönnun HE heddsins var prófað að hafa þjöppuna 14.5:1 (diesel territory?).

Nú gat Jaguar státað af hraðskreiðasta fjöldaframleidda bíl í heimi (XJS) sem náði 250km./klst.

Síðasta stóra breytingin varð sem fyrr segir ’89 þegar Jaguar verksmiðjurnar í samvinnu við TWR buðu XJR-S til að halda uppá frækinn sigur í Le Mans árið áður. Þá var vélin komin í 6 lítra og skilaði 318 hestöflum. Gott ef er ekki til einn slíkur grænn blæjubíll sem nú er í góðum höndum hér á landi.
Þó er mál manna að 6 lítra vélin sé ekki eins silkimjúk og ‘litla’ systir 5.3l.


Í keppni.
Í kringum 1980 keppti Jaguar þá undir merkjum (British) Leyland á XJC með vélum sem skiluðu 550 hö við 8.000 snúninga. Áreiðanleikamál hindruðu það að sigur ynnist enda var þetta á þeim tíma sem Jaguar fékk á sig orðspor bilana.
Jaguar hrifsaði titilinn í European Touring Car championship ’84 og ’85 frá þá hinum almáttugu BMW undir leiðsögn Tom Walkinshaw (TWR). World Sports Car Championship titillinn ‘87, Le Mans ‘88 og ‘90, ásamt 24 stunda Daytona ‘88. Allir titlar unnir með kappakstursútgáfu V12 vélarinnar, með allt að 7 lítra rúmtaki!

Vegna upphaflegrar hönnunar vélarinnar (sem frambærileg keppnisvél) er tiltölulega lítið mál að auka aflið til muna ef aukinn hávaði skiptir ekki höfuð máli. Og jafnvel mikið breytt er hún þó mun þýðari en venjuleg V8.
Hægt er að kaupa frá amk 2 aðilum stimpla, sveifarás og fleira til að nota í boraða vélin (7.3l).
Vegna hárrar þjöppu (HE) henta vélarnar ekki fyrir túrbínur en þó hafa menn gert slíkt og sjást þá tölur upp í 1000 hö. Einn XJS bíll var dyno mældur 700 hö út í hjól eftir að þjappan hafði verið lækkuð í 9:1og tveir Lysholm blásarar settir á.
Vélin hefur verið og er notuð í hraðbátum s.s. Lister Storm þá útboruð.

Endalokin.
Síðasta vélin fór frá verksmiðjunni í Radford 17 febrúar 1997 og hefur líklegast verið í X300 bíl. Eiginlegur arftaki mun vera AJ-V8 vélin sem var þróuð alfarið af Jaguar (þó Ford hafi borgað brúsann). Cosworth hedd, Kolbenschmidt blokk, Mahle stimplar og ventlar fengnir úr smiðju TWR. V6 vélin sem í dag fyrirfinnst í Jaguar er Ford vél.

Þó sexan væri ætíð vinsælli var það tólfan sem hélt uppi merki Jaguar.




Til frekari fróðleiks um Jaguar þá vil ég benda á aðra grein sem ég skrifaði fyrr á árinu um Seríu III af XJ (http://www.hugi.is/bilar/greinar.php?grein_id=69165).


Heimildir:
Roger Bywater (www.jagweb.com/aj6eng)– The technical history of the V12 engine
Pascal Gademer (South Florida Jaguar Club)
Google.com vísanir á ýmsar heimasíðu