Í ágúst heyrði ég fyrst fréttir af því að einhverjir á Íslandi ætluðu sér eitthvað með fyrstu Discworld-bókina, The Colour Of Magic. Í nóvember sá ég, eins og öll þjóðin reyndar, að bókin væri að koma út í íslenskri þýðingu, og fékk hún nafnið Litbrigði Galdranna. Þar sem ég er mikill aðdáandi höfundarins, Terry Pratchett, festi ég kaup á bókinni og las mig í gegnum hana til að sjá hvernig tekist hefði. Í stuttu máli, þá tókst ekki vel til. Reyndar ætla ég að ganga svo langt að segja að það hafi tekist illa.

Fyrsta vísbendingin mín var titillinn sjálfur, sem er að mínu mati vitlaust þýddur. Réttari titill væri Litbrigði Töfranna, þar sem orðið “töfrar” vísar til allra töfra Diskheimsins, en orðið “galdrar” vísar meira til notkunnar manna á töfrum. Ef íslenska titlinum væri snúið aftur yfir á ensku, myndi hann koma út sem “The Colour Of Spells”, sem gengur ekki alveg upp.

Aðrar frekari vísbendingar sem ég tók eftir áður en ég byrjaði að lesa bókina voru að ég gat sama sem engar upplýsingar fundið um útgefendur bókarinnar, né um þýðandann, Jón Daníelsson. Þó hefur bót orðið á þeim efnum síðan.

En allavega, lestur bókarinnar gekk vel í fyrstu, en þó fannst mér undarlegt að einungis sumar persónur fengu íslensk nöfn, en aðrar ekki. Til dæmis hélt Rincewind nafninu sínu, en Twoflower var íslenskaður að Tvíblómi. Í mínum huga ætti annaðhvort að þýða öll nöfnin eða ekki, og það sérstaklega í ævintýrabókum. Uppnefni og viðurnefni skal vitaskuld íslenska að fullu, en Twoflower er hvorugt, þetta er alvöru nafnið hans. En sem líður á bókina því slakari verður þýðingin. Til að nefna nokkur dæmi: “The Patrician”, maðurinn sem stjórnar borginni Ankh-Morpork með grjótmjúkri hendi, varð einfaldlega að borgarstjóra. Gyðjan “Lady Luck” verður að Dulynjunni og með því skemmast nokkur mikilvæg atriði í bókinni. Að minnsta kosti einn brandari er beinþýddur og missir þarmeð algjörlega marks. Að lokum sleppir Jón svo að þýða orðið Scrofula, sem er eitlaveiki eða eitlakröm. Jóni tekst þá frábærlega á einum stað, en það er þegar hann skírir guðinn “Fate” sem “Örlög”, með nefnifallið Örlögur.

En mér sýnast öll vandamálin sem tengjast þýðingu bókarinnar stafa út frá tveimur vandamálum. Hið fyrsta er að Jón er einfaldlega ekki kunnugur Diskheiminum, sem er alveg skiljanlegt og afsakanlegt. Hið seinna er að mér sýnist Jóni ekki hafa gefist nægilegur tími til að klára þýðinguna, hvað þá fínpússa hana. Því meira sem líður á bókina, því verri verður þýðingin. Seinna vandamálinu má skella hreint og beint á útgefendurna, sem vildu endilega koma bókinni út fyrir jólin og fyrir vikið tóku sér ekki einusinni tíma til að prófarkalesa bókina, því að þýðingunni slepptri eru fjölmargar augljósar villur í bókinni af öllum stærðum og gerðum.

Þeir sem héldu að meistaraverk Douglas Adams, Leiðarvísir Puttaferðalangsins Um Vetrarbrautina, hefði fengið slæma útreið þegar hún var íslenskuð á sínum tíma, verða eflaust orðlausir yfir því hvernig var farið með Litbrigði Töfranna. Ég get því miður ekki ráðlagt neinum að kaupa þessa bók. Dyggustu Pratchett-aðdáendurnir munu eflaust kaupa þessa bók bara vegna þess að hún er á íslensku, en öllum öðrum ráðlegg ég að forðast bókina.